18 ára stúlka kærði par fyrir nauðgun

Segist hafa beðið konuna um hjálp

Kona, sem leitaði til Neyðarmóttöku vegna nauðgana aðfaranótt föstudagsins 25. nóvember, hefur kært karlmann og konu fyrir nauðgun.

Konan sem um ræðir er rétt nýorðin átján ára gömul. Hinn meinti ofbeldismaður er hins vegar á fertugsaldri. Kærastan hans sem var kærð með honum er um tvítugt.

Samkvæmt heimildum DV bar konan því við við starfsfólk Neyðarmóttökunnar að maðurinn hefði nauðgað henni á meðan kærastan var viðstödd. Konan sagði jafnframt að hún hefði beðið kærustu mannsins um aðstoð en hún hefði ekki orðið við því. Hún hefði jafnvel tekið þátt í ofbeldinu. Því var hún einnig kærð.

Konan hitti parið á Eldhúspartýi útvarpsstöðvarinnar FM957, sem haldið var á Glaumbar í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt föstudags. Samkvæmt heimildum DV ber konan því við að hún hefði kannast við manninn og treyst honum, þar sem hann var í ákveðinni ábyrgðarstöðu gagnvart henni. Hún hafi ætlað að fara með parinu á skemmtistaðinn Players í Kópavogi og því fengið far með því. Vinkona hennar hefði einnig ætlað með en parið meinað henni það.

Ferðin hafi hins vegar tekið óvænta stefnu þegar konan endaði heima hjá manninum, án þess að hafa ætlað sér það. Þar segir hún að ofbeldið hafi farið fram.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa frétt.