Bretar óttast Kötlugos: Frétt slær í gegn á BBC

Mynd: Mynd Ingólfur Júlíusson

Bretar virðast vera áhugasamir um mögulegt Kötlugos ef marka má frétt sem birtist á vef breska ríkisútvarpsins, BBC, í morgun. Fréttin er í öðru sæti yfir mest lesnu fréttir vefjarins, en BBC er einn mest lesni fréttavefur heims.

Í umfjöllun BBC er fjallað um mögulegar afleiðingar eldgoss í Kötlu og meðal annars rætt við Pál Einarsson jarðeðlisfræðing hjá Háskóla Íslands. Ford Cochran sem titlaður er sérfræðingur um Ísland hjá National Geographic vekur athygli á miklum jarðhræringum í Kötlu undanfarna mánuði. Það gefi vísbendingar um að eitthvað kunni að gerast á næstunni.

Páll Einarsson segir að atburðir sem áttu sér stað þann 9. Júlí í sumar, þegar flóð varð í Múlakvísl, hafi markað upphafið að nýju „óróatímabili“ í Kötlu. Töldu jarðfræðingar að lítið gos hefði orðið í Kötlu með fyrrgreindum afleiðingum. Þá er talað um að sagan sýni að eldgos verði í Kötlu að jafnaði á 40 til 80 ára fresti . Þar sem síðasta stóra gos í Kötlu hafi orðið árið 1918 sé kominn tími á annað stórt gos.

Mögulegt Kötlugos er sett í samhengi við Skaftárelda sem hófust árið 1783 og stóðu í um átta mánuði. Áhrif þeirra voru skelfileg og meðal annars tekið fram að einn af hverjum fimm Íslendingum hafi látist og helmingur búfénaðar. „Við skulum rétt vona að gos í Kötlu verði ekkert í líkingu við það,“ segir Cochran.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.