Aðdáendur Frostrósa afar sárir og svekktir

Tónleikum í Ýdölum aflýst vegna veðurs - „Okkur þykir þetta ákaflega leiðinlegt“

Mynd: Samsettar myndir úr safni

„Menn eru almennt mjög svekktir og fúlir vegna barnanna sem áttu að syngja með á tónleikunum og voru búin að æfa í tvo mánuði fyrir þá,“ segir ósáttur miðaeigandi á tónleika Frostrósa sem fram áttu að fara í Ýdölum í gærkvöldi. Tónleikunum var aflýst vegna veðurs en íbúar á svæðinu klóra sér í höfðinu því veður og færð þar um slóðir var með ágætum í gær.

Í tilkynningu til miðaeigenda í gær á Facebook-síðu Frostrósa er beðist innilegarar afsökunar á þessum óumflýjanlegu óþægindum. Segir enn fremur að búið sé að taka frá þau fáu sæti sem eftir voru á tónleikum sönghópsins á Akureyri í kvöld og er þeim sem áhuga hafa á boðið að mæta þangað í staðinn. Aðrir geti fengið endurgreitt.

Heitar umræður eru á Frostrósasíðunni vegna málsins þar sem talað er um að veðurafsökunin sé lítið annað en fyrirsláttur.

„Veðurguðirnir eru víðar á ferð en í næsta nágrenni. Það er ástæðan,“ segir forsvarsmenn Frostrósa við svekkta miðaeigendur á síðunni og söngkonan Hera Björk blandar sér í umræðuna og útskýrir málið.

„Okkur þykir þetta ákaflega leiðinlegt en það var ferðalag okkar frá Austfjörðum sem gekk ekki sem skyldi vegna veðurs í dag [gær] og því urðum við að aflýsa. Vonumst til að sjá ykkur sem flest á Akureyri á morgun [dag].“

Þrátt fyrir útskýringar og afsökunarbeiðnir virðast íbúar enn reiðir vegna málsins og segir ein ósátt kona:

„Það verður langt í það að fjárfest verði í miðum á Frostrósir aftur það er á hreinu!“

Faðir sem átti miða á tónleikana bætir við að honum þyki þetta ákaflega miður. „Dóttir mín átti að syngja á þessum tónleikum og því var ég farinn að hlakka mikið til. En, þetta er víst það sem við búum við úti á landi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.