Kýpverskt skip með ónýtt stýrisblað í vanda

Mikill viðbúnaður vegna hættuástands

Mynd: Mynd: Sverrir Aðalsteinsson/Marine Traffic

Landhelgisgæslunni barst aðstoðarbeiðni frá dráttarbátnum Birni Lóðs á Höfn í Hornafirði klukkan rúmlega 3 í nótt vegna flutningaskipsins ALMA sem er skráð á Kýpur sem undanfarið hefur haft viðkomu í Vestmannaeyjum og Hornafirði. Lóðsinn var að aðstoða flutningaskipið við Ósinn á Hornafirði um þrjúleytið þegar uppgötvaðist að stýri ALMA virkaði ekki þar sem stýrisblaðið var farið.

Skrúfa og vél skipsins voru hins vegar í lagi en lóðsinn náði að taka skipið í tog og óskaði samstundis eftir aðstoð vegna aðgerðarinnar.

Landhelgisgæslan hafði samband við Ingibjörgu, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Hornafirði og togskipið Hoffell sem staðsett var um 6 sjómílur SA af vettvangi. Þá var einnig haft samband við höfnina á Reyðarfirði um að fá dráttarbátinn Vött á staðinn og var Lóðsinn, dráttarbáturinn í Vestmannaeyjum sömuleiðis settur í viðbragðsstöðu.

Í nótt vann Björn Lóðs, dráttarbáturinn á Hornafirði að því að koma skipinu frá landi í áttina að togskipinu Hoffell. Björgunarskipið aðstoðaði við að koma togvír á milli. Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar var kölluð út og flaug hún á svæðið og var varðskipið Þór sett í viðbragðsstöðu.

Í nótt var SA 10-15 m/sek á svæðinu en spáð var að vindur myndi snúa sér í SV hvassvirði og því metið sem svo að nauðsynlegt væri að koma skipinu sem fyrst austur fyrir Stokksnes.

Um klukkan 6 í morgun var komin dráttartaug milli ALMA og Hoffells og var hættuástandi aflýst.

Björgunarskipi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og Vetti, lóðsinum á Reyðarfirði var snúið til hafnar. Þyrla Landhelgisgæslunnar verður á Höfn í Hornafirði og til aðstoðar ef á þarf að halda. Flutningaskipið verður dregið Austur fyrir Stokksnes vegna SV áttar á svæðinu og síðan í var á Berufirði eða Reyðarfirði.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.