Femínistar fordæma flagarabók Vöreks

„Virðist í rauninni vera nauðgunarleiðarvísir“

Mynd: Mynd: SKJÁSKOT AF VEFNUM WWW.ROOSHV.COM

„Femínistafélag Íslands fordæmir útgáfu þessarar bókar sem virðist vera ætluð sem hjálpargagn fyrir einstaklinga að því hvernig á að fyrirlíta konur,“ segir Eygló Margrét Stefánsdóttir, talskona Femínistafélags Íslands, um nýútkomna bók Bang Iceland: How To Have Sex With Icelandic Women in Iceland. Eins og DV hefur fjallað um er bókin einskonar sjálfshjálparbók fyrir erlenda karlmenn sem vilja sænga hjá íslenskum konum.

Þrátt fyrir að bókin hafi valdið fjaðrafoki hér heima segir höfundurinn Roosh Vörek í samtali við DV í gær að hann hafi aðeins fært til bókar það sem hann hafi lært af því að fylgjast með íslenskum karlmönnum. Bókin er gagnrýnd fyrir að vera lítillækkandi fyrir íslenskar konur þar sem Vörek mælir meðal annars með því að besta ráðið til að fá íslenskar konur í rúmið sé að hella þær fullar, einangra þær frá vinkvennahópi sínum og helst bjóða þeim í eftirpartý.

DV bar útkomu bókarinnar undir talskonu Femínístafélags Íslands en þar á bæ hryllir fólki við Bang Iceland-bókinni.

„Þessi bók virðist í rauninni vera nauðgunarleiðarvísir um hvernig best sé að nauðga íslenskum konum þar sem höfundur minnist oftar en einu sinni á að best sé, og auðvelt einnig, að hella íslenskar konur fullar og einangra þær til að geta fengið sínu fram. Það er ekki nokkrum manni eða konu bjóðandi að virða slíkan viðbjóð viðlits.“

Eygló Margrét segir bókina hreina og beina vanvirðingu við allar konur og þá sérstaklega við íslenskar konur. Femínistafélag Íslands leggur til að þessi bók verði sniðgengin sem og höfundur hennar þar sem hann sýni greinilega með skrifum sínum fordóma og kynhatur í garð kvenna.

Sjá einnig:

Gillz um flagarabók Vöreks: „Eins rangt og hægt er“

Lærði á íslenskar konur með að fylgjast með íslenskum körlum

Mælir með því að hella konur fullar og einangra þær

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.