Lærði á íslenskar konur með að fylgjast með íslenskum körlum

„Ég trúi á hugmyndir mínar,“ segir rithöfundurinn

Mynd: Mynd: SKJÁSKOT AF VEFNUM WWW.ROOSHV.COM

„Íslenskir karlmenn hljóta þá að koma fram við konur á niðrandi hátt líka. Ég skrifa bara niður hvernig best sé að kynnast íslenskum konum út frá því sem ég sé hjá íslenskum karlmönnum,“ segir rithöfundurinn Roosh Vörek aðspurður hverju hann svari þeim sem telja bók hans Bang Iceland: How To Have Sex With Icelandic Women in Iceland lítillækkandi fyrir íslenskar konur.

Fréttir af útkomu bókarinnar í gær og dag hafa fallið í grýttan jarðveg meðal margra Íslendinga, kvenna jafnt sem karla. DV sendi fyrirspurn á Vörek í dag þar sem hann var beðinn um að útskýra skrif sín þar sem hann lýsir íslenskum konum meðal annars sem lauslátum.

Lærði af íslenskum karlmönnum

„Það þarf minni tíma og minna spjall við íslenska konu þar til hún vill eiga við þig mök. Ég held að það sé meira út af því að þær drekka svo mikið fremur en að þær séu lauslátar yfir meðallagi,“ útskýrir rithöfundurinn.

Vörek hefur skrifað sams konar sjálfshjálparbækur fyrir karlmenn byggðar á reynslu sinni af löndum eins og Argentínu, Brasilíu og Kólumbíu. En hversu mikil rannsóknarvinna fór í þessa bók? Hversu langan tíma dvaldi hann hér á landi til að geta sett saman sína „ítarlegu greiningu“ á íslenskum konum sem hann lýsir meðal annars í bókinni þannig að best sé að hella þær nógu fullar og einangra þær frá hópnum sem þær komu með á skemmtistaðinn, til að eiga með þeim einnar nætur gaman.

„Ég bjó á Íslandi í tvo mánuði fyrr á þessu ári, í janúar og febrúar. Rannsóknir mínar byggðust á því að fara út á lífið um hverja helgi, fylgjast með, eiga samræður (og fleira) við fólk.“

Trúir á það sem hann skrifar

Þeir sem lesa skrif Roosh Vörek gætu velt því fyrir sér hvort manninum sé alvara. Á stundum mætti ætla að hann hefði búið sér til einhvern karlrembukarakter til að geta skrifað það sem honum sýnist. Ekki ósvipaðan Barney Stinson í þáttunum How I Met Your Mother. DV spurði hvort honum væri alvara og hvort hann trúði því sem hann kenndi í bókum sínum.

„Það sem þú lest er það sem þú færð. Það sem ég skrifa um gerðist í raun og veru. Ég trúi á hugmyndir mínar,“ segir rithöfundurinn sem kveðst skrifa um allar þjóðir sem hann heimsæki. Hann hafi ákveðið að heimsækja Ísland því landið sé einn einstakasti staður veraldar til að ferðast til.

Gæti komið inn ranghugmyndum hjá mönnum

Hvað sem segja má um kvenfyrirlitningu og niðrandi ummæli í garð íslenskra kvenna í bókinni er líklega áleitnasta spurningin hvaða afleiðingar svona bækur geti haft. Bækur þar sem því er haldið fram að hér sé lauflétt fyrir meðalmanninn að fá sér á broddinn, að því gefnu að stúlkan sé drukkin og þú sért útlendingur.

Blaðamaður spurði því Vörek hvort hann hefði ekki áhyggjur af því að bókin hans gæti orðið til þess að einhverjir lesenda hans, sem komi hingað til lands í þeirri trú að hér væri svo auðvelt að sænga hjá konum, gætu endað á því að fremja hér alvarlega kynferðisglæpi þegar í ljós kemur kannski að svo sé ekki og þeim mistekst ætlunarverk sitt.

„Bækurnar mínar eru bara fyrir meðaljóninn sem vill kynnast erlendri konu. Ég gef þeim ráð varðandi stefnumót og spjall sem ég lærði af því að fylgjast með íslenskum karlmönnum og prófa mig áfram með mínum eigin hugmyndum. Þessu má skipta í tvær fylkingar. Annars vegar kynlífstúristana sem ferðast um og kaupa sér vændiskonur, og hins vegar venjulega náunga eins og lesendur mína sem vilja ferðast og eiga mök við venjulegar stúlkur. Ég hjálpa fólki að mynda sambönd (stundum einungis byggð á kynlífi en stundum meiru). Ég kenni ekki neitt sem íslenskir karlmenn eru ekki þegar að gera,“ segir Vörek.

Aðspurður segist hann hafa selt nærri 16 þúsund eintök af Bang-bókum sínum og flestir sem kaupa þær eru bandarískir karlmenn. Þó ólíklegt megi teljast að Bang Iceland-bókin komist á metsölulista vestanhafs er ljóst að kannski nokkur þúsund karlmenn muni lesa hana og hugsanlega heimsækja Ísland einhvern daginn með kenningar og lýsingar Vöreks á íslenskum konum í kollinum.

Sjá einnig: Mælir með því að hella konur fullar og einangra þær

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.