„Frásögn Guðrúnar Ebbu verður alveg sérlega ótrúverðug“

Kristinn Jens Sigurþórsson segir það verði að fara fram umfjöllun um falskar minningar

Kristinn Jens Sigurþórsson, prestur í Saurbæ, segir það vera nauðsynlegt að umfjöllun um falskar og bældar minningar fari fram hjá íslenskum sálfræðingum. Kristinn ritaði í dag aðra grein sína um málið í Fréttablaðið.

Þar segir hann að hann taki undir það að sá sem segi frá kynferðisbroti og sé ekki trúað geti upplifað höfnun, en bendir á að Guðrún Ebba Ólafsdóttir, dóttir Ólafs Skúlasonar biskups, hafi verið það vel á veg komin í bataferli sínu að hún kjósi það að koma fram fyrir alþjóð og segja sögu sína, enda hafi hún verið í sálfræðimeðferð í langan tíma:

„Guðrún Ebba telur sig augljóslega það vel á veg komna í bataferli sínu og uppgjöri að hún kýs að koma fram fyrir alþjóð í sjónvarpi auk þess að opinbera einkamál sín í ævisögu. Með slíkri framgöngu má segja að málið hafi tekið nýja stefnu. Það er orðið opinbert og því ætti öllum að vera frjálst að fjalla um það á þeim sama vettvangi.“

„Ég er aðeins að velta upp mjög eðlilegum spurningum í sambandi við þetta mál. Minningar Guðrúnar Ebbu í langflestum tilfellum eru ekki venjulegar minningar. Sérhver lesandi hlýtur að spyrja spurninga hvort um falskar minningar er að ræða. Það eru fjölda mörg dæmi um það, sérstaklega frá Bandaríkjunum þar sem svona mál hafa komið upp, þar sem um falskar minningar er að ræða. Umfjöllunin þá hefur verið mjög svipuð og í máli Guðrúnar Ebbu, þar sem viðkomandi fer í meðferð og þar hafa minningarnar hafa komið upp. Sérfræðingar hafa varað sérstaklega við slíkum minningum,“ segir Kristinn.

Kristinn telur því ríka ástæðu til þess að skoða betur minningar Guðrúnar Ebbu. Ellefu þjóðkirkjuprestar gerðu málið að umfjöllunarefni sínu í blaðagrein þar sem þeir sögðu að það væri nánast atvinnurógur hvernig Kristinn fjallaði um Ásu Guðmundsdóttur, sálfræðing Guðrúnar Ebbu. Hann segir það umhugsunarefni hvers vegna sálfræðingur hennar hefur ekki tjáð sig opinberlega um málið. „Hún er bundin trúnaði í máli þar sem skjólstæðingur hennar hefur sagt sína sögu opinberlega. Ef skjólstæðingurinn vill reynast trúverðugur þá kannski myndi hann vilja aflétta leyndinni,“ segir Kristinn. „Nú ef ekki þá af hverju? Það eru mjög margar spurningar sem vakna í kring um þetta og það eru mjög mörg atriði í sambandi við þetta allt saman sem gera það að verkum að frásögn Guðrúnar Ebbu verður alveg sérlega ótrúverðug.“

Nú hefur gríðarleg umfjöllun verið um mál Guðrúnar Ebbu bæði í ljósvakamiðlum og prentmiðlum. Telur Kristinn þá blaðamenn og samstarfskonu Guðrúnar Ebbu ekki hafa sinnt skildum sínum varðandi það að kanna málið frekar? „Þeir aðilar, blaðamennirnir, útgáfan og höfundur ritsins, Elín Hirst, það er kannski ekki hægt að gera þær kröfur til þeirra að þeir séu inni í þessum sálfræðilegum vangaveltum og vandamálum. Sá sem þarna ber ábyrgðina er fyrst og fremst sálfræðingurinn,“ segir Kristinn. „Það er bara eðlilegt að sálfræðingurinn hafi haldið sér til hlés, en þegar spurningar vakna um einstakan skjólstæðing sem greinilega vill fá opinbera umræðu um mál sín, þá hljóta að vakna spurningar um það hvort það fari ekki fram frekari og dýpri umfjöllum um þessi mál. En auðvitað hljóta þessi mál að koma upp í umræðunni.“

Margir hafa talið það styrkja mál Guðrúnar Ebbu að Sigrún Pálína Ingvarsdóttir og aðrar konur hafi greint frá kynferðisofbeldi sem þær urðu fyrir af hendi Ólafs Skúlasonar. Kristinn vill ekki tengja þau mál saman eða leggja mat á tengsl þeirra.

„Ég ætla ekki að leggja mat á það, en margir hafa ályktað svo. Ég held að það sé ekki hægt að skoða þetta mál í því samhengi. Ég tel að það sé varhugavert þar sem þetta mál er af allt öðru tagi. Hér eru það þær bældu minningar sem skipta máli,“ segir Kristinn. „Þessi mál eru ekki ótengd, en samt sem áður eru þau mjög ólík.“

Varðandi grein þeirra ellefu presta sem rituð var í fréttablaðið um helgina hafði Kristinn þetta að segja:

„Þeir virðast vera að kalla eftir því að Guðrún Ebba sé studd skilyrðislaust og ég er að kalla eftir því að það sé staldrað aðeins við. Þarf ekki að spyrja stórra spurninga í þessu samhengi? Hér er stór sálfræðileg álitamál sem um er að ræða. Kirkjan þarf að vera gagnrýnin og spyrja spurninga. Hér er um að ræða látinn mann sem stendur frammi fyrir mannorðsmissi og getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér og svo manneskjuna sem sakar hann um óhæfuverk. Við vitum að þær ásakanir byggja á mjög sérstökum minningum sem við vitum að eru umdeildar. Þá er mjög eðlilegt að fólk staldri við og kalli eftir því að þetta mál fái faglega og meiri umfjöllun.“

Ása Guðmundsdóttir sálfræðingur Guðrúnar Ebbu, kvaðst í samtali við DV vera bundin trúnaði skjólstæðings síns og gæti því eðli málsins samkvæmt ekki tjáð sig um það. Berglind Guðmundsdóttir sálfræðingur og doktor í klínískri sálfræði sagði í viðtali við DV í október að þau mál sem komið hafa upp í Bandaríkjum séu ekki eins mörg og vísað hefur verið til.

Tengdar fréttir

Sálfræðingur: „Falskar minningar ekki algengar“

Prestur óttast að minningar Guðrúnar Ebbu séu falskar

Marie Fortune: Auðveldara að styðja kynferðisbrotamanninn

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.