Þingkona vill svipta hulunni af 550 milljarða afskriftum

Leggur fram frumvarp þess efnis á Alþingi

Mynd: Mynd Róbert Reynisson

Á að birta upplýsingar um hverjir hafa fengið skuldaeftirgjafir yfir 100 milljónir?
Sjá niðurstöður

Eygló Harðardóttir, þingkona Framsóknarflokksins, vill birta upplýsingar um það hefðir hafa fengið stóran hluta skulda sinna strikaðar út í bankakerfinu. RÚV hefur greint frá því að 50 fyrirtæki hafa fengið yfir einn milljarð króna afskrifaðan en Eygló vill að upplýsingar um afskriftir umfram 100 milljónir verði birtar opinberlega. Leynd hvílir yfir þeim 550 milljörðum króna sem afskrifuð hafa verið hjá áðurnefndum 50 fyrirtækjum.

„Mikil tortryggni ríkir í samfélaginu um starfsemi fjármálastofnana, afskriftir og niðurfærslur lána. Öll þekkjum við hvernig sögur og orðrómar geta verið magnaðri en raunveruleikinn sjálfur,“ segir hún máli sínu til rökstuðnings. Eygló bloggar um þetta á heimasíðu sinni í dag. „Þetta yrði gert í þeirri von að draga úr tortryggni, vantrausti og tryggja gagnsæi í meðferð fjármálastofnana á lánum viðskiptavina, – án þess að fórna bankaleyndinni,“ segir hún.

Eygló hyggst leggja fram frumvarp um þetta á Alþingi en hún hefur áður lagt slíkt frumvarp fram. „Frumvarpið leggur til að skattkerfið verði nýtt til að birta upplýsingar um hverjir hafa fengið skuldaeftirgjafir yfir 100 milljónir kr. óháð því hvort þær teljist til tekna eða ekki,“ segir hún um frumvarpið. Eygló vill að upplýsingarnar liggi fyrir samhliða álagningaskrá og skattaskrá.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.