„Ég er pólitískt undrabarn“

Heiða Kristín Helgadóttir stofnar stjórnmálaflokk

Mynd: Mynd: DV/Sigtryggur Ari Jóhannsson

„Ég sé fyrir mér að þarna sé frjálslynt fólk. Það að vera frjálslyndur finnst mér hafa tapað merkingu sinni. Að vera frjálslyndur þýðir að umbera aðra og treysta fólki. Mér finnst margt í málflutningi þeirra sem segjast vera frjálslyndir oft ekki vera þannig. Mér finnst þeir einmitt ekki treysta fólki til að taka ákvarðanir og að þeir beri í alvöru ekki virðingu og umberi aðra eða leyfi fólki að vera alls konar,“ segir Heiða Kristín Helgadóttir sem vinnur að stofnun nýs stjórnmálaflokks með Guðmundi Steingrímssyni og fleirum.

Í viðtali í helgarblaði DV segist Heiða Kristín aldrei hafa átt sér þann draum að verða þingmaður. „Nei, ég hef aldrei átt þann draum sérstaklega. Mér þætti alveg þægilegra að ég gæti falið mig en maður verður stundum að stíga út fyrir þægindarammann og stundum fær maður verkefni í lífinu sem maður ætlaði ekki endilega að sinna.“

Heiðu Kristínu hefur verið lýst sem pólitískum snillingi af borgarstjóranum Jóni Gnarr en hún hefur einnig skapað sér orðspor sem konan sem vinnur á bak við tjöldin. En er hún heilinn á bak við þetta allt saman? „Ég vil meina að ég sé pólitískt undrabarn. Nei, mér þykir bara mjög vænt um þau orð, ég reyni allavega að verða að liði. Mér hefur líkað ofsalega vel þessi staða, að vera á bak við. Mér finnst það mjög áhugavert og það er merkilegur skóli fyrir mig. Það er erfitt að stíga fram og gefa færi á sér, það er skrýtinn staður að vera á, en mér finnst samt mikilvægt líka að prófa það. Þú hefur meira svigrúm og það vita færri af þér þegar þú ert fyrir aftan.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.