Átök innan Kennarasambandsins: Vísindasjóður sakar KÍ um bókhaldsbrot

Krefjast gagna um bókahald sjóðsins

Stjórn Vísindasjóðs félags Framhaldsskólakennara og félags skjólastjórnenda hefur undanfarið beðið eftir gögnum um greiðslur og bókhald Vísindasjóðs, frá Kennarasambandi Íslands, en stjórn Vísindsjóðs ber ábyrgð á sjóðnum.

Vísindasjóður er ein af reglhlífastjórnum innan Kennarasambandsins og ber ábyrgð á greiðslum vegna endumenntunar. Sjóðurinn er endurmentunnarsjóður framhaldsskólakennara og stjórnenda sem gerir kennurum kleift að sækja sér endurmenntun, námskeið, ráðstefnur eða og styrki vegna námsorlofa. Sjóðurinn er hluti af launakjörum framhaldsskólakennara og stjórnenda og það er ríkið sem greiðir í sjóðinn. Svo virðist sem talsverðar fjárhæðir séu afgreiddar í gegn um hann mánaðarlegar, eða allt að 8 milljónir.

Samkvæmt upplýsingum frá stjórn Vísindasjóðs og bréfi sem sent var öllum framhaldsskólakennurum og stjórnendum í gærkvöldi virðist sem svo að bókhald Vísindasjóðs og Kennarasambandsins sé rekið sameiginlega, en stjórn sjóðsins telur eðlilegast að það sé aðskilið þar sem stjórn þess ber endanlega ábyrð á sjóðnum. Stjórnarmeðlimir vilji ekki blanda bókhaldi Kennarasambands Íslands við bókhald sjóðsins.

Stjórnarmeðlimir hafa því farið fram á að fá afhent bókhaldsgögn, en hafa mætt mikilli tregðu frá Kennarasambandinu og hafa þau gögn ekki borist. Því hefur stjórnin ekki getað kannað greiðslur í og úr sjóðnum. Í bréfinu er varpað fram að bókhaldslög hafi verið brotin og hefur stjórn Vísindasjóðs ráðið lögfræðing til þess að kanna hvernig staðið er á málunum.

Meðal þess sem deilt er um eru vaxtagreiðslur innlánsreikninga Vísindasjóðs, en stjórn sjóðsins segir að vextir af átta milljónum mánaðarlega séu ekki að skila sér í sjóðinn.

Í bréfinu segir:

„Af þeim gögnum sem hafa verið skoðuð er m.a. ljóst að tekjur sjóðsins frá ríkinu, rúmlega 8 milljónir í hverjum mánuði, eru færðar út af bankareikningi sjóðsins og inn á bankareikning KÍ. Þar liggja

peningar sjóðsins í nokkrar vikur þar til þeim er skilað aftur til rétts eiganda. Vextir af þessum peningum skila sér ekki til sjóðsins né hefur sjóðurinn þessar fjárhæðir til ráðstöfunar meðan þær

liggja annars staðar. Í febrúar 2011 voru febrúartekjur sjóðsins, rúmlega 8 milljónir, teknar út af reikningi sjóðsins viku áður en janúartekjum var skilað til baka. Í heila viku lágu að minnsta kosti 16 milljónir af peningum sjóðsins á reikningi KÍ. Til að koma í veg fyrir að tekjur sjóðsins væru millifærðar reglulega inn á reikning KÍ gaf sjóðstjórn formleg fyrirmæli um að engar greiðslur ættu sér stað af bankareikningi sjóðsins nema með samþykki sjóðstjórnar. Undanskildar voru styrkgreiðslur skv.

listum frá ritara sjóðsins. Þessum fyrirmælum var í engu svarað né orðið við þeim.“

Í bréfinu sem sent var félagsmönnum segir einnig:

„Alvarlegur trúnaðarbrestur hefur orðið milli aðila og ljóst að framundan er vinna við að fá afhent bókhaldsgögn sem ekki eru ennþá komin í hendur sjóðstjórnar. Sjóðstjórn hefur einsett sér að skoða

allt bókhald sjóðsins fyrir árin 2010 og 2011.“

Augljóst er á bréfinu að mikið hefur gengið á milli sjóðstjórnar og Kennarasambandsins, en þar kemur fram að starfsmaður KÍ hefur hótað sjóðstjórninni meiðyrðamáli og að starfsmenn sem sinnt hafa trúnaðarstörfum hafa neitað að sinna stöfum fyrir sjóðinn.

Í samtali við DV.is í morgun sagði Þórey Vilhjálmsdóttir formaður vísindasjóðs FS að málið ætti sér langan aðdraganda, „Ef þetta væri meðganga, þá væri komið barn,“ sagði hún og vísar til þess að deilurnar hófust í janúar síðastliðnum.

„Við viljum fá þessi gögn. Hvort sem þetta er löglegt eða ekki löglegt hvernig staðið er að málum þá teljum við mikilvægt að breyta kerfinu þar sem við viljum ekki blanda málefnum sjóðsins við bókhald Kennarasambandsins,“ segir Þórey en vill ekki fara nánar yfir málið fyrr en fleiri gögn hafa borist sjóðnum.

Stjórn Kennarasambandsins hefur fundað í morgun um málið og því var ekki hægt að ná tali af Þórð Hjaltested, formanni KÍ.

Bréf sjóðsins til kennara og stjórnenda í framhaldsskólum má lesa hér fyrir neðan:

Til sjóðfélaga og eigenda Vísindasjóðs FF og FS

Efni: Málefni Vísindasjóðs FF og FS og samskipti sjóðstjórnar við Kennarasamband Íslands

Ágæti sjóðfélagi.

Stjórn Vísindasjóðs FF og FS hefur undanfarið misseri haft til skoðunar þá vinnu sem innt er af hendi á skrifstofu KÍ við vörslu, bókhald, afgreiðslu og umsjón með starfsemi sjóðsins. Upphaflega var óskað eftir afriti af samningi um svokallað aðstöðugjald sem KÍ greiddi sér af bankareikningi sjóðsins. Við ársuppgjör sjóðsins fyrir árið 2010 í janúar sl. óskaði löggiltur endurskoðandi KÍ eftir staðfestingu á samþykki sjóðsins á aðstöðugjaldi vegna þjónustu KÍ fyrir sjóðinn. Það kom í ljós að hvorki var fyrir hendi formlegur samningur milli aðila né lá fyrir neitt samkomulag um aðstöðugjald til KÍ eða hvernig breytingar á aðstöðugjaldi skyldu vera. Þó hafði skrifstofustjóra KÍ verið falið að ganga frá slíkum samningi við stjórn sjóðsins um áramótin 2002/2003.

Þegar í ljós kom að ekki hafði verið gerður samningur bað sjóðstjórn um ljósrit af greiðsluskjölum úr bókhaldi sem sýndu eftir hverju aðstöðugjaldið var greitt og hver samþykkti greiðslur út af bankareikningi sjóðsins. Ekki var orðið við þeirri beiðni en hluti þeirra var þó afhentur eftir nokkurt þref. Þegar sjóðstjórn varð ljóst að óeðlileg tregða var hjá starfsmönnum KÍ að afhenda bókhaldsgögn leitaði hún til löggilts endurskoðanda KÍ um að hann hlutaðist til um að bókhald sjóðsins yrði afhent. En allt kom fyrir ekki.

Það kom í ljós að bókhald sjóðsins er ekki aðgreint frá bókhaldi KÍ. Þar sem beiðni sjóðstjórnar um að fá frumgögn bókhalds afhent var hafnað, leitaði sjóðstjórn til hæstaréttarlögmanns til að fara með innsetningar mál fyrir sjóðinn. Þetta var í maí 2011. Beiðni um innsetningu frestaðist þar sem KÍ afhenti hluta þeirra gagna sem beðið var um. Samkvæmt áliti lögmannsins ber stjórn sjóðsins ábyrgð á fjárreiðum hans. Það felur í sér ábyrgð á því að bókhald sé í samræmi við lög. Enn í dag hefur sjóðstjórn ekki fengið aðgang að öllum gögnum sem nauðsynleg eru til að átta sig á tekjuhlið sjóðsins.

Það hefur því aðeins verið hægt að skoðað hluta af þeim gögnum sem tilheyra sjóðnum fyrir árið 2010 og 2011. Nógu mikið samt til að stjórnin telji algerlega nauðsynlegt að fá öll bókhaldsgögn til að skilja til fulls meðferð á fjármunum sjóðsins. Við skoðun á gögnum sem hafa verið afhent hefur sjóðstjórn notið liðsinnis óháðs löggilts endurskoðanda og lögmanns. Þau gögn sem sjóðstjórn hefur nú þegar undir höndum sýna að bókhaldslög hafa verið brotin og er þar um að ræða brot á nokkrum greinum bókhaldslaga og sum ítrekuð.

Af þeim gögnum sem hafa verið skoðuð er m.a. ljóst að tekjur sjóðsins frá ríkinu, rúmlega 8 milljónir í hverjum mánuði, eru færðar út af bankareikningi sjóðsins og inn á bankareikning KÍ. Þar liggja peningar sjóðsins í nokkrar vikur þar til þeim er skilað aftur til rétts eiganda. Vextir af þessum peningum skila sér ekki til sjóðsins né hefur sjóðurinn þessar fjárhæðir til ráðstöfunar meðan þær liggja annars staðar. Í febrúar 2011 voru febrúartekjur sjóðsins, rúmlega 8 milljónir, teknar út af reikningi sjóðsins viku áður en janúartekjum var skilað til baka. Í heila viku lágu að minnsta kosti 16 milljónir af peningum sjóðsins á reikningi KÍ. Til að koma í veg fyrir að tekjur sjóðsins væru millifærðar reglulega inn á reikning KÍ gaf sjóðstjórn formleg fyrirmæli um að engar greiðslur ættu sér stað af bankareikningi sjóðsins nema með samþykki sjóðstjórnar. Undanskildar voru styrkgreiðslur skv. listum frá ritara sjóðsins. Þessum fyrirmælum var í engu svarað né orðið við þeim.

Fyrir utan ofangreint hefur starfsfólk KÍ sem gegnir trúnaðarstörfum fyrir Vísindasjóð FF og FS neitað að hafa bein samskipti við sjóðstjórn. Starfsmaður KÍ hefur hótað sjóðstjórn meiðyrðamáli. Þá sá forysta KÍ ástæðu til að bóka á stjórnarfundi þann 25. mars 2011 og birta opinberlega að stjórn sjóðsins hefði gert athugasemdir við störf starfsmanna KÍ sem ekki eiga við rök að styðjast og vinnubrögð sjóðstjórnar eru hörmuð. Einnig er þar fullyrt að tilgreindir starfsmenn KÍ hafi í einu og öllu farið að lögum og reglum. Sjóðstjórn fór fram á bókun stjórnar KÍ yrði efnislega tekin til baka með nýrri bókun. Þessi krafan sjóðstjórnar var sett fram þar sem athugasemdir sem hún hefur komið á framfæri eru studdar rökum.

Sjóðstjórn fer nú með prókúru á bankareikning sjóðsins og mun annast greiðslu styrkja í gegnum bankann. Eftir því sem sjóðstjórn kemst næst þarf ekki að verða röskun á starfsemi sjóðsins og greiðslu styrkja ef KÍ setur hagsmuni sjóðsins ofar sérhagsmunum einstaklinga innan KÍ. Þannig ættu umsækjendur um styrk ekki að verða fyrir neinum óþægindum vegna þessarra breytinga og geta áfram sent umsóknir á Laufásveg 81 eða í gegnum „Mínar síður“.

Alvarlegur trúnaðarbrestur hefur orðið milli aðila og ljóst að framundan er vinna við að fá afhent bókhaldsgögn sem ekki eru ennþá komin í hendur sjóðstjórnar. Sjóðstjórn hefur einsett sér að skoða allt bókhald sjóðsins fyrir árin 2010 og 2011.

Ef þörf krefur verður sjóðurinn fluttur úr KÍ húsinu og vistaður annars staðar. Stjórn Vísindasjóðs vill með aðgerðum sínum tryggja sem best hagsmuni félagsmanna félaganna beggja og er í einu og öllu að fylgja eftir þeim skyldum sem hún hefur tekist á herðar.

Með vinsemd,

Stjórn Vísindasjóðs FF og FS

Þórey Hilmarsdóttir, formaður. Fulltrúi FF

Elísabet Siemsen, ritari. Fulltrúi FS

Linda Rós Michaelsdóttir, meðstjórnandi. Fulltrúi FF

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.