„Slær hana ítrekað með pottinum þangað til handfangið fer af“

Systir Laufeyjar Ingibjartsdóttur lýsti hrottafenginni árás Israels Duranona

Mynd: Mynd Skjáskot Rúv.

„Ofbeldið setti mark sitt á þá,“ segir Þórdís Ingibjartsdóttir um syni Laufeyjar Ingibjartsdóttur, systur hennar, sem lést í vor úr krabbameini. Laufey greindist með krabbamein í janúar á þessu ári. Rúmlega ári áður hafði hún orðið fyrir hrottalegri árás af hálfu eiginmanns síns Israel Duranona. Hún lét nærri því lífið í þeirri árás en Israel svipti sig lífi með því að drekka stíflueyði.

Israel og Laufey áttu tvíburana Júlían og Jóel sem Þórdís og eiginmaður hennar hafa nú tekið að sér. Í Kastljósþætti kvöldsins greind Þórey frá þessu máli en þar sagði hún að systir hennar hefði skrifað undir skjal sem kvað á um að tvíburarnir færu ekki úr fjölskyldunni. Í viðtalinu lýsti hún Israel sem frekum og stjórnsömum manni. Israel og Laufey gengu í hjónaband árið 2002. Fjölskylda Laufeyjar tók ekki eftir neinu óeðlilegu til að byrja með fyrr en Israel lokaði á fjölskylduna og leyfði Laufeyju ekki að hafa samband við neinn. Hann tók af henni símann og hótaði foreldrum hennar.

„Okkur fannst hann alltaf einkennilegur í fasi,“ sagði Þórdís um Israel en þegar Laufey varð ófrísk árið 2005 sagði hún eitthvað hafa brostið í Israel. „Hann hafði ekki góða nærveru,“ sagði Þórdís.

Þegar drengirnir fæddust hafði Israel samband við fjölskylduna sem fékk að nálgast Laufeyju á ný. Þegar fjölskyldan hafði aðstoðað þau við að koma sér fyrir á nýju heimili lokaði hann á þau aftur. „Þetta voru þakkirnar,“ sagði Þórdís um hegðun Israels. Faðir Laufeyjar hélt dagbók. Þar lýsti hann til að mynda þegar hann gaf tvíburunum afmælisgjöf sem voru bílar sem hann hafði búið til. Faðir Laufeyjar sagði Israel hafa hlegið að gjöfunum þegar tvíburarnir opnuðu gjafirnar og hent þeim.

Israel reyndi að myrða Laufeyju fyrir tveimur árum en Þórdís sagði Laufeyju hafa verið búin að sækja um skilnað. Daginn eftir að þau höfðu skrifað undir skilnaðarpappíranna fór Israel til Laufeyjar og bað um að fá að keyra hana í vinnuna. Þórdís sagði Laufeyju hafa samþykkt það til þess að losna við þras.

Þegar Laufey var að hafa sig til inn á baði fór Israel inn í eldhús og náði í pott. Þórdís sagði Laufeyju hafa haldið að hann ætlaði að taka pottinn með sér til þess að nota hann á nýja heimilinu sínu. Israel réðst síðan á Laufeyju og barði hana með pottinum þannig að hún féll í baðkarið. „Það er jafnvel það sem bjargar henni potturinn fór fyrst í vegginn og síðan í höfuðið . Hann slær hana ítrekað með pottinum þangað til handfangið fer af,“ sagði Þórdís sem sagði Israel hafa farið inn í eldhús og náð í pönnu til þess að ljúka sér af. „Hann hringir síðan í neyðarlínuna og segist hafa myrt eiginkonu sína. Hann tekur síðan stíflueyði og klárar sig,“ sagði Þórdís.

Umfjöllun Kastljóss um málið má sjá hér.

Sjá einnig: http://www.dv.is/frettir/2011/9/25/styrktar-og-minningartonleikar-juliusar-og-joels-duranona-og-fjolskyldu/

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.