Jóel litli á Indlandi: Búið að gefa út vegabréf?

Búið er að gefa út vegabréf fyrir Jóel Færseth Einarsson sem eins og komið hefur fram hefur verið fastur á Indlandi ásamt foreldrum sínum frá því í desember. Frá þessu var greint í kvöldfréttum Stöðvar 2 en þar sagði enn fremur að líklegt væri að fjölskyldan kæmi heim til Íslands á næstu dögum.

Jóel litli fékk íslenskan ríkisborgararétt fyrir jólin en indversk kona gekk með hann gegn greiðslu fyrir Helgu Sveinsdóttur og Einar Færseth, foreldra Jóels. Mikil umræða hefur verið um staðgöngumæðrun hérlendis eftir að mál þeirra komst í hámæli.

Heimkoma þeirra hefur hingað til strandað á útgáfu vegabréfs fyrir Jóel og lagalegri óvissu um hver fer með forræði hans.

Heimildir fréttastofu Stöðvar 2 herma að sendiráðunautur frá íslenska sendiráðinu í Nýju Delí hafi haldið í dag til Shennaí þar sem Helga og Einar hafa dvalist undanfarið í því skyni að afhenda þeim vegabréf Jóels.

Óstaðfest er enn hvort indversk stjórnvöld hafi gefið ákveðin svör varðandi forræðið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.