Telur tengsl við Wikileaks hafa hindrað milljaðra fjárfestingu

Mynd: Skjáskot af RÚV

Landsnet sendi frá sér yfirlýsingu í dag. Þar segir að ákvörðun um að selja fyrrrverandi höfuðstöðvar fyrirtækisins við Bústaðaveg, byggist á hreinum viðskiptalegum forsendum og hafi verið án allra afskipta utanaðakomandi aðila, en Ríkissjóður keypti húsið í dag undir hluta af starfsemi Veðurstofunnar. Greint var frá þessu í fréttum Ríkissjónvarpsins í kvöld.

Við söluna á húsinu í dag komust í uppnám tveggja milljarða króna áætlanir um starfsemi fyritækisins DataCell sem hugðist opna höfuðstöðvar sínar hér á landi og starfrækja gagnaver í húsnæðinu. Sú starfsemi hefði að öllum líkindum tryggt tugum manna atvinnu.

Samningur um leigu DataCell á húsnæðinu og forkaupsrétt hafði verið handsalaður í viðurvist lögfræðinga og var tilbúinn til undirritunar þegar Landsneti barst tilboð í húsnæðið frá fjármálaráðuneytinu, sem var tekið og gengið var frá þeim samningi í dag. DataCell situr því eftir með sárt ennið.

Ólafur V. Sigurvinsson rekstrarstjóri DataCell tekur yfirlýsingu Landsnets ekki trúanlega og telur riftun samningsins stafa af tengslum fyrirtækisins við Wikileaks, sem er einn af viðskiptavinum þess. „Maður spyr sig hvort þetta sé bein árás á tjáningarfrelsið og hvort íslensk stjórnvöld séu hrædd um að hleypa Wikileaks hér inn í landið,“ sagði Ólafur í samtali við RÚV. DataCell skoðar það nú af alvöru að flytja alla starfsemi sína til Sviss.

DV.is greindi í gær frá innihaldi bréfs sem Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, ritaði Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra vegna þessa máls. Hann spurði hana hvort þetta samræmdist yfirlýstri stefnu hennar í gagnaversmálum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.