Kunningi Matthíasar: „Ég trúi því að hann finnist heill á húfi“

„Þetta er ofboðslega góður strákur og hæfileikaríkur á mörgum sviðum. Hann málaði mynd handa mér sem hangir uppi á stofuveggnum heima og hafa margir dáðst að henni og spurt mig út í hana. Það er mjög leiðinlegt að hann sé ekki kominn í leitirnar en ég gæti alveg trúað honum til að vera einn einhvers staðar í kofa uppi í sveit. Ég trúi því að hann finnist heill á húfi.“ Þannig lýsir kunningi Matthíasar Þórarinssonar, félaga sínum, en ekkert hefur spurst til hans síðan í desember.

Í síðustu viku fannst bíll Matthíasar, gamall rússajeppi, brunninn til kaldra kola skammt frá malarnámum á Kjalarnesi. Matthías var ekki í bílnum og þar var engar um vísbendingar að finna um ferðir hans. Leitarflokkur fór um stórt svæði í kringum námurnar, niður í Kollafjörð og upp í Esjuhlíðar, en ekkert bólaði á honum þar. Lögreglan telur ekki útilokað að hann hafi orðið sér út um annan bíl og erfitt sé að vita hvert þeir eigi að beina leit sinni.

Engin skipulögð leit að Matthíasi er í gangi þessa stundina en lögreglan vill benda fólki á að vera vakandi og hafa samband ef það telur sig hafa einhverjar upplýsingar um ferðir hans.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.