Kristinn krefst skýringa: Landsnet riftir samningi við samstarfsaðila Wikileaks

Mynd: Mynd: Reuters

DV hefur undir höndum bréf sem Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, sendi Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra fyrir nokkrum dögum. Í bréfinu lýsir hann yfir áhyggjum sínum af framtaksleysi íslenskra stjórnvalda og jafnframt skoðanaleysi þeirra í garð aðgerða sem beinast að Wikileaks og fyrirtækum sem þeim tengjast.

Bréfið ritar Kristinn í kjölfar þess að Landsnet rifti nýlega samningi sem handsalaður hafði verið við hálf-íslenska fyrirtækið DataCell, sem er samstarfsaðli Wikileaks, um fasteign við Bústaðarveg sem hýsti áður höfuðstöðvar Landsnets.

DataCell hafði samið um leigu og kauprétt á þessu ákveðna húsnæði og hugðist setja þar upp gagnaver og höfuðstöðvar. Samningarnir höfðu verið handsalaðir í viðurvist lögmanna en riftunin átti sér stað daginn áður en skrifa átti undir samninga.

DataCell og Wikileaks hafa átt í viðskiptasambandi um þjónustukaup og DataCell hefur einnig séð um að koma söfnunarfé til Wikileaks. Í desember lokuðu alþjóðlegu kreditkortafyrirtækin Mastercard og Visa Europe greiðslugáttum til DataCell vegna sambands þeirra við WikiLeaks.

Kristinn telur þessa riftingu Landsnets á samningi sínum við DataCell stafa af tengslum fyrirtækisins við Wikileaks. „Fái ég ekki rökstuddar og trúverðugar skýringar um annað geri ég ráð fyrir því að þetta sé raunin,“ segir Kristinn í bréfi sínu. „Ætla má að það verði illt til afspurnar hérlendis sem erlendis að opinbert íslenskt fyrirtæki leggist á árar með þeim öflum sem reyna með öllum tiltækum ráðum að koma WikiLeaks á kné og fórni í leiðinni verulegum íslenskum viðkiptahagsmunum.“

Kristinn segir forsvarsmenn DataCell hafa tjáð sér að miklir hagsmunir séu í húfi fyrir íslenskt viðskiptaumhverfi. Samkvæmt þeim munu fimm til sexhundruð fyrirtæki hafa viljað semja um gagnahýsingu á Íslandi. Þá segir hann DataCell hafa eyrnamerkt verulega fjármuni og flutt til landsins til að byggja upp starfsemi hér.

Kristinn spyr iðnaðarráðherra: „Er þetta í samræmi við yfirlýsta stefnu þína í gagnaversmálum?“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.