Vel þess virði að draga ummæli um vændi fram í dagsljósið

Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra, gagnrýnir að fjallað sé um þau viðhorf hennar gagnvart staðgöngumæðrun, að þar sé um að ræða samsuðu af vændi og barnasölu, í samhengi við erfiðleika íslenskra hjóna að fá að koma barnið sitt hingað til lands frá Indlandi. Hún segir þó vel þess virði að draga sjónarmiðin fram í dagsljósið að nýju.

Halla skrifaði viðhorfspistil í Morgunblaðið árið 2007 þar sem hún sagði: „Með því að borga konu fyrir að ganga með barn er því verið að búa til undarlega samsuðu af vændi og barnasölu. Vændi í þeim skilningi að verið er að kaupa afnot af líkama annarrar manneskju og barnasölu því barnið er jú selt. Ójafnvægið milli þeirra sem borga fyrir að fá eigið barn og konunnar sem fær greitt er augljóst.“

Í gærkvöldi skrifaði hún á heimasíðu sína að það væri „vel þess virði að draga hann [pistilinn] aftur fram í dagsljósið þegar ræða á þau álitaefni sem taka þarf mið af í umfjöllun um staðgöngumæðrun.“

Halla gagnrýnir að sagt sé í frétt DV að tregða hafi verið hjá innanríkisráðuneytinu í máli ungs drengs og íslenskra foreldra hans, sem nú dvelja á Indlandi, þar sem ekki fæst leyfi til að koma með drenginn til Íslands. Á sama tíma segir hún tregðuna ekki stafa af hennar skoðunum, heldur viljans til að fara að lögum.

„Í frétt sinni slær blaðamaðurinn því fram sem fullyrðingu, og án alls rökstuðnings, að „mikil tregða“ hafi verið hjá innanríkisráðuneytinu í umræddu máli,“ segir Halla. „Ekki er þetta vönduð fréttamennska. En sé verið að vísa til umfjöllunar annarra fjölmiðla og einstaklinga þá er rétt að upplýsa að umrædda „tregðu“ má rekja til vilja innanríkisráðuneytisins að fara að lögum og alþjóðlegum samningum um réttindi barna, þótt samúð okkar kunni að vera með einstaklingunum sem um ræðir.“

Halla neitaði að tjá sig um málið í samtali við blaðamann DV og kvaðst ætla að svara á öðrum vettvangi.

Foreldrar Jóels Færseth bíða þess að gefið verði út vegabréf fyrir drenginn, en þau eignuðust hann með hjálp staðgöngumóður. Alþingi veitti Jóel íslenskan ríkisborgararétt þann 18. desember síðastliðinn og töldu foreldrar hans, Helga Sveinsdóttir og Einar Þór Færseth, að vandmál þeirra væri leyst og þau kæmust fljótlega til Íslands. Svo reyndist þó ekki vera þrátt fyrir að þau telji sig hafa öll þau vottorð sem staðfesti að þau hafi umráð yfir drengnum. Þau dvelja nú við þröngan kost á Indlandi.

Staðgöngumæðrun mæðra í þriðja heiminum fyrir vestræna foreldra hefur verið gagnrýnd víða út frá því sjónarmiði að staðgöngumæðrunin sé í hagnaðarskyni og feli í sér að líkami konu sé notaður í annarlegum tilgangi. Staðgöngumæðrun er hins vegar ekki heimiluð á Íslandi. Þingsályktunartillaga liggur nú fyrir Alþingi þar sem lagt er til að frumvarp verði undirbúið sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni hér á landi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.