Líkti staðgöngumæðrum við vændiskonur: „Þetta er bara ótrúleg frétt“

„Þetta er bara ótrúleg frétt. Ég bara hef aldrei, hvorki sem blaðamaður né aðstoðarmaður eða hvað annað sem ég hef verið að gera, séð annað eins,“ segir Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra. Þetta er svar Höllu, sem líkti staðgöngumæðrum við barnasölu og vændi í viðhorfspistli í Morgunblaðinu fyrir fjórum árum, þegar hún var spurð hvort hún væri enn sömu skoðunar og hvort afstaða hennar hefði einhver áhrif í ráðuneytinu.

Fjallað var um málið á DV.is fyrr í dag. Í frétt DV.is kom fram að einhverjir kynnu að staldra við þessar skoðanir Höllu vegna starfs hennar sem aðstoðarmanns ráðherra. Þá var einnig sagt í fréttinni að töluverðrar tregðu hefði gætt hjá innanríkisráðuneytinu við að veita Jóel Færseth, fæddum með aðstoð staðgöngumóður á Indlandi, íslenskt vegabréf. Alþingi veitti Jóel íslenskan ríkisborgararétt þann 18. desember síðastliðinn, en hann er enn vegabréfslaus. Innanríkisráðuneytið hefur aðkomu að útgáfu vegabréfa í gegnum sýslumannsembættin, sem heyra undir ráðuneytið.

Halla brást ókvæða við símtali blaðamanns og spurði hvaða pappíra hann fullyrti að foreldrar drengsins hefðu í höndunum.

Helga Sveinsdóttir, móðir Jóels, tjáði sig um þá pappíra, sem Halla krafði blaðamann svara um, í Kastljósþætti í vikunni. Hún sagði að til staðar væru allir þeir pappírar sem krafist væri á Indlandi, þar á meðal yfirlýsing frá eiginmanni staðgöngumóðurinnar um að hann geri ekkert tilkall til barnsins og að þetta sé ekki hans barn. Helga segir að pappírarnir hafi verið sendir til utanríkisráðuneytisins í Nýju Delí þar sem þeir hafi verið stimplaðir með alþjóðlegum lögfræðilegum stimpli um að vera löglegir

Það sem Halla sagði meðal annars í viðhorfspistlinum:

„Í umræðum um staðgöngumæðrun er gerður greinarmunur á því að t.d. náin vinkona eða systir sé fengin til þess að ganga með barnið og að konu sé borgað fyrir að „sjá um starfið“. Ef við viljum heimila það síðarnefnda er um barnasölu að ræða enda aðeins stigsmunur á því að selja barn með öðrum genum og hreinlega að sjá viðskiptatækifæri í því að fæða börn og selja þau. Með því að borga konu fyrir að ganga með barn er því verið að búa til undarlega samsuðu af vændi og barnasölu. Vændi í þeim skilningi að verið er að kaupa afnot af líkama annarrar manneskju og barnasölu því barnið er jú selt. Ójafnvægið milli þeirra sem borga fyrir að fá eigið barn og konunnar sem fær greitt er augljóst.“

Sjá einnig:

Aðstoðarmaður ráðherra líkti staðgöngumæðrum við vændiskonur

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.