Bíll Matthíasar fannst brunninn til kaldra kola

Mynd: Mynd: Lögreglan

Rússajeppi sem talinn er tilheyra Matthíasi Þórarinssyni, sem leitað hefur verið að síðan á mánudaginn, fannst brunninn til kaldra kola í gær skammt frá malarnámum á Kjalarnesi. Matthías var ekki í bílnum og þar var heldur engar frekari vísbendingar að finna um ferðir hans. Samkvæmt lögreglu er greinilegt að jeppinn brann fyrir nokkru síðan.

Ekkert hefur spurst til Matthíasar í nokkrar vikur. Að sögn lögreglu mun hann vera mikill einfari en hefur þó alltaf látið fjölskyldu sína reglulega vita af ferðum sínum. Hann hætti því hinsvegar rétt fyrir jól.

Talið er hugsanlegt að síðast hafi sést til Matthíasar á Selfossi í vikunni fyrir jól. Þá var hann staddur á Austurvegi á móts við mjólkurbú Flóamanna á leið til austurs.

Samkvæmt lögreglu sker Matthías sig töluvert úr hvað klæðaburð varðar og klæðist gjarnan fötum sem hann saumar sjálfur. Þegar sást til hans síðast var hann klæddur í græna úlpu og gallabuxur. Þá er hann oft með svart svokallað „buff“ á höfðinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.