Aðstoðarmaður ráðherra líkti staðgöngumæðrum við vændiskonur

Halla Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra, skrifaði viðhorfspistil um staðgöngumæðrun sem birtist í Morgunblaðinu þann 27. apríl árið 2007, og síðar á bloggsíðu hennar. Þar líkir hún samgöngumæðrun við barnasölu og vændi.

„Í umræðum um staðgöngumæðrun er gerður greinarmunur á því að t.d. náin vinkona eða systir sé fengin til þess að ganga með barnið og að konu sé borgað fyrir að „sjá um starfið“. Ef við viljum heimila það síðarnefnda er um barnasölu að ræða enda aðeins stigsmunur á því að selja barn með öðrum genum og hreinlega að sjá viðskiptatækifæri í því að fæða börn og selja þau.

Með því að borga konu fyrir að ganga með barn er því verið að búa til undarlega samsuðu af vændi og barnasölu. Vændi í þeim skilningi að verið er að kaupa afnot af líkama annarrar manneskju og barnasölu því barnið er jú selt. Ójafnvægið milli þeirra sem borga fyrir að fá eigið barn og konunnar sem fær greitt er augljóst,“ segir Halla um skoðun sína á staðgöngumæðrun.

Einhverjir gætu staldrað við þetta viðhorf Höllu í ljósi stöðu hennar sem aðstoðarmanns innanríkisráðherra. Mikil tregða hefur verið hjá ráðuneytinu við að gefa út vegabréf fyrir Jóel Færseth, litla drenginn á Indlandi sem íslensk hjón eignuðust með hjálp staðgöngumóður. Alþingi veitti Jóel íslenskan ríkisborgararétt þann 18. desember síðastliðinn og töldu foreldrar hans, Helga Sveinsdóttir og Einar Þór Færseth, að vandmál þeirra væri leyst og þau kæmust fljótlega til Íslands. Svo reyndist þó ekki vera þrátt fyrir að þau telji sig hafa öll þau vottorð sem staðfesti að þau hafi umráð yfir drengnum.

Brotið á réttindum drengsins

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur beitt sér í máli drengsins og foreldra hans á Alþingi og segist ekki skilja tregðu ráðuneytisins. „Ég skil ekki hvers vegna innanríkisráðuneyti Ögmundar Jónassonar er ekki búið að gefa út vegabréf fyrir drenginn svo hann geti snúið heim til Íslands,“ segir hann á bloggsíðu sinni. Hann vill meina að verið sé að brjóta 66. málsgrein stjórnarskrárinnar þar sem segir: „Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi.“

Staðgöngumæðrun er óheimil á Íslandi og Sigurður Kári er þeirra skoðunar að nauðsynlegt sé að taka á þessum málum almennt. „Það blasir við að það þurfi að taka á þessum málum í framhaldi af þessu en það þarf að leysa þennan vanda. Þetta barn fæddist og það þarf að leysa vanda þess og foreldra þeirra,“ sagði hann í Kastljósþætti í vikunni.

Innanríkisráðuneytið gaf út yfirlýsingu varðandi málið á þriðjudaginn:

„Íslensk stjórnvöld sendu í lok desember, erindi til indverskra yfirvalda þar sem óskað er tiltekinna upplýsinga sem ætlað er að greiða úr óvissu um réttarstöðu barnsins, hvað varðar ríkisfang og hvort hin íslensku hjón fari með forsjá þess að indverskum lögum,“ segir meðal annars í yfirlýsingu ráðuneytisins. „Þessar upplýsingar hafa ekki borist en þegar afstaða indverskra yfirvalda liggur fyrir er vonast til að unnt verði að afhenda íslensku hjónunum vegabréf barnsins.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.