Gætu þurft að skilja barn sitt eftir á Indlandi

„Maður skilur ekkert í þessum seinagangi heima. Þau svör sem við fáum eru þau að allir þessir pappírar skipti engu máli,“ segir Helga Sveinsdóttir sem ásamt eiginmanni sínum, Einari Færseth, eignaðist son á Indlandi með hjálp staðgöngumóður á síðasta ári.

Algjör pattstaða er í máli Helgu og Einars þar sem staðgöngumæðrun er óheimil hér á landi. Stjórnvöld hér á landi vilja ekki gefa drengnum, Jóel Færseth, vegabréf þó svo að samkvæmt fæðingarvottorði Jóels séu Helga og Einar foreldrar hans.

Helga var í viðtali í Kastljósþætti kvöldsins þar sem hún lýsti því að þau hafi verið búin að reyna að eignast barn í fjöldamörg ár. Þá hafi þau verið búin að vera á biðlista í langan tíma eftir því að ættleiða barn en ekkert hafi gerst í þeim málum.

„Við fórum þá að hugsa hvað við gætum gert sjálf. Við vissum að íslensk pör höfðu farið erlendis og eignast barn með hjálp staðgöngumóður,“ sagði Helga en þau höfðu loks upp á virtum indverskum lækni sem aðstoðaði þau.

Aðspurð hvers vegna Indland varð fyrir valinu sagði Helga að það hafi verið hagkvæmast. Þau höfðu aldrei haft efni á því að fá staðgöngumóður í Bandaríkjunum en kostnaðurinn við að fá staðgöngumóður á Indlandi sé í kringum þrjár milljónir króna.

Þegar Jóel fæddist fengu þau fæðingarvottorð hans í hendurnar. Helga segir að þá hafi þau sett sig í samband við yfirvöld á Íslandi og spurst fyrir um hvernig þau gætu fengið vegabréf. Þá hafi þau verið krafin skýringa á því hvers vegna barnið fæddist á Indlandi og hvers vegna fæðingarvottorðið hafi verið gefið út af indverskum yfirvöldum.

Helga, Einar og Jóel hafa verið föst á Indlandi í þrjá mánuði vegna pattstöðunnar sem upp er kominn og brátt rennur vegabréfsáritun þeirra úr gildi. Aðspurð hvað myndi gerast þá svaraði Helga því til að þá þurfi þau að fara úr landi og skilja drenginn eftir á Indlandi, ella eiga á hættu að lenda í fangelsi.

Dögg Pálsdóttir, lögmaður Helgu og Einars, sagði að þau hefðu leitað til sín í október síðastliðnum. Sagðist Dögg skilja málið þannig að reglugerðir hafi herst meðan að á meðgöngunni stóð. Sagði hún ennfremur að sú leið sem íslensk stjórnvöld væru að fara væri hræðileg fyrir foreldra og barn. Íslensk stjórnvöld væru einnig skuldbundin til að tryggja það að gert væri það sem er barninu fyrir bestu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.