Afsökunarbeiðni Pálma og Hjálmars

Hjálmar Jónsson, sóknarprestur í Dómkirkjunni, kom ekki heldur á fundinn. Sigrún Pálína Ingvarsdóttir sakaði Hjálmar um að hafa brugðist sér í þessum sáttatilraunum og gengið erinda biskups. Í messu þann 29. ágúst bað hann Sigrúnu Pálínu afsökunar.

„Ég var allur af vilja gerður til að hjálpa konu sem kom til mín í marsbyrjun 1996. Hún hafði komið til margra annarra en ekki fengið þá hjálp sem hún leitaði að. Nú var komið að mér. Ég vildi heils hugar greiða úr fyrir henni. En það var endaslepp hjálp, því miður. Ég olli henni vonbrigðum og var ekki fær um að veita þá hjálp sem hún leitaði. Það sem ég gerði var ekki nóg. Fyrir það bið ég hana fyrirgefningar.“

Pálmi Matthíasson kom aftur á móti á þennan fund presta og fórnarlamba Ólafs. Pálmi var fyrsti presturinn sem Sigrún Pálína leitaði til vegna þessa máls og kvartaði hún undan aðgerðaleysi hans við siðanefnd. En hann hlýddi á sögur þessara kvenna, tók utan um þær og bað þær afsökunar.

Í lögregluskýrslu kemur fram að þegar Sigrún Pálína leitaði til hans sagði hann að sig tæki sárt að heyra þessa sögu, en um leið, að hann væri þess ekki umkominn að leggja dóm á sannleiksgildi orða hennar. Þá kvaðst hann hafa bent Sigrúnu Pálínu á að ef hún hefði svo alvarlegar ásakanir fram að færa væri rétt af henni að leita lögformlegra leiða til að koma máli sínu í réttan farveg.

Í þessu samhengi kveðst hann hafa bent henni á að leita til rannsóknarlögreglu ríkisins og vegna kynna sinna af starfsmönnum þar, sem vanir væru að fást við mál af þessum toga, fullvissaði hann hana um að þar yrði tekið vel á móti henni og hún fengi leiðbeiningar um réttarstöðu sína og lögformlega möguleika í máli þessu. Um leið kveðst Pálmi hafa bent Sigrúnu Pálínu á að málið kynni að verða erfitt í meðförum ef langt væri liðið frá meintum atvikum.

Í skýrslunni kemur einnig fram að samtalinu hafi lokið á þann veg að Pálmi hafi boðið henni að hafa samband við sig síðar en hún hafi ekki gert það og því hafi þessi fundir verið einu samskipti hans við Sigrúnu Pálínu og Alfreð Wolfgang, eiginmann hennar. Við yfirheyrsluna var Pálmi spurður að því hver tilgangur Sigrúnar Pálínu hafi verið þegar hún leitaði til hans og til hvers hún hafi ætlast af honum.

Pálmi kveðst hafa litið svo á að Sigrún Pálína vildi og hefði þörf fyrir að tjá sig um að hún hafi orðið fyrir áfalli með sína kirkju. Hann minntist þess ekki að hún hefði beðið hann um einhverjar aðgerðir eða beðið hann um að ræða þetta við aðra. Hún hafi ekki leyst hann undan neinum trúnaði í þessu máli.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.