Afþakkaði fund með Karli

Karl Sigurbjörnsson biskup kom að biskupsmálinu árið 1996 þegar hann reyndi ásamt Hjálmari Jónssyni að ganga á milli Ólafs og kvennanna og ná fram sáttum. Síðar sökuðu bæði Sigrún Pálína og Dagbjört Guðmundsdóttir hann um að hafa breytt orðalagi í yfirlýsingu sem þær áttu að skrifa undir. Sögðu þær hann hafa tekið út lykilsetningu í yfirlýsingunni, þar sem sagði að þær drægju sannleikann ekki til baka þó að þær drægju málið til baka.

Sigrún Pálína neitaði að skrifa undir en Dagbjört dró málið til baka. Dagbjört er eitt af fórnarlömbum Ólafs og steig hún fram í fyrsta skipti undir nafni og mynd og sagði sögu sína í DV þann 27. ágúst. Þar sagði hún meðal annars frá því að hún hefði átt von á símtali frá biskupi eftir fund Sigrúnar Pálínu Ingvarsdóttur með Karli og kirkjuráði árið 2009.

„Svona er ég barnaleg. Ég beið eftir því að Biskupsstofa myndi hafa samband við mig eftir að Sigrún Pálína fékk þennan fund. Ég virkilega hélt að Karl myndi sjálfur óska eftir því og hafa löngun til þess. Bara að horfa framan í mig,“ sagði Dagbjört.

Beið í þrjár vikur eftir biskupi

Hún sagði einnig frá því að hún hefði síðan óskað sjálf eftir fundi með Karli um leið og umfjöllun um biskupsmálið hófst á ný í DV þann 11. ágúst, en þá birtist fyrsta frétt um bréf Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur til kirkjuráðs. Á fundinum með Karli ætlaði Dagbjört að leggja tvær spurningar fyrir hann. „Mig langar að leggja tvær spurningar fyrir hann og ég vil horfast í augu við hann þegar hann svarar þeim: Hefði hann virkilega þurft frekari sönnunargögn fyrir því að værum að segja sannleikann en það sem hann varð vitni að í Hallgrímskirkju? Og: Af hverju þorðu kirkjunnar menn ekki að standa með okkur?“

Þegar viðtalið við Dagbjörtu var birt þann 27. ágúst, hafði hún enn ekki fengið svar frá Biskupsstofu um fundinn. Dagbjört var svo boðuð á fund biskups í síðustu viku en þá afþakkaði hún fundinn, enda hafði hún þegar fundað með prestum og sagt þeim sögu sína. Þar með hafði Dagbjört gert skyldu sína gagnvart kirkjunni og afhent henni „þetta ljóta leyndarmál,“ eins og hún orðaði það, en frá því að málið hófst árið 1996 var það alltaf markmið hennar. Eins og fyrr segir þá kom Karl ekki á þann fund, en hefði getað komið þangað hefði hann viljað hlýða á hana.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.