Lofuðu prestinum ekki að þegja um málið

Fram kom í frétt DV fyrr í dag að fjölskylda prestsins sem sakaður var um kynferðisbrot gegn þremur drengjum hefði staðið í þeirri meiningu að samið hefði verið um að fjalla ekki um málið í fjölmiðlum. DV bar þetta undir Árna Svan Daníelsson upplýsingafulltrúa Biskupsstofu. Þegar spurningin var fyrst borin undir hann þagði hann lengi, sagði svo „Ég get ekki ...“ og „Má ég hafa samband við þig aftur?“ Sem hann gerði og kvaðst þá ekki geta svarað spurningum um nafngreindan mann. Þegar blaðamaður endurtók spurninguna án þess að nafngreina manninn sagði Árni að sér væri ekki kunnugt um slík loforð. Benti hann á Gunnar Rúnar Matthíasson formann fagráðsins sem var í beinu sambandi við bæði gerandann og fórnarlömb hans.

Öllum frjálst að tjá sig

Gunnar Rúnar þvertekur fyrir það að fagráðið hafi gefið út slík loforð. „Það væri mjög sárt ef svo hefði verið,“ segir Gunnar Rúnar. „Ég las þetta einmitt í fréttinni og þetta kom mér mjög á óvart. Hvorki ég né aðrir höfum gefið út nein slík loforð í þeim málum sem ég hef komið að. Þvert á móti var ítrekað við alla málsaðila að þeir væru frjálsir og gætu tjáð sig um málið hvar og hvenær sem þeir vildu þó að niðurstaðan hafi orðið þessi. Okkur hefur nefnilega verið legið á hálsi að þagga niður mál og ég vildi tryggja það að öllum væri ljóst að þeim væri frjálst að tala um þetta. Það er ekki á nokkurn hátt sem menn eru bundnir af því. Ég hef allavega ekki verið hluti af neinu slíku samkomulagi. Aftur á móti var ákveðið að svara fyrirspurnum um þetta mál um leið og þær myndu berast.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.