Geir Waage: Njósnarar biskups

DV hefur undir höndum bréf frá Geir Waage þar sem hann tjáir sig á lokuðum samskiptavef starfandi presta um tilefni ummæla sinna um þagnarskylduna, Langholtskirkjumálið þar sem njósnarar á vegum biskups létu hann vita hvað gerðist innan kirkjunnar, reiði biskups og sársaukann sem fylgir því að vændur um þöggun. Hann segir einnig að sér sé kastað fyrir lýðinn.

Er Geir að svara bréfi frá séra Gunnlaugi Stefánssyni í Heydölum sem segir meðal annars að þær aðstæður geti komið upp að þolandi kynferðisofbeldis létti á raunum sínum vegna trúnaðarskyldu en þá reyni á styrk prestsins að leiða einstaklinginn inn í gróandi farveg, sem felst m.a. í því að meintur sakborningur komist undir manna hendur. Og það geti verið erfitt. Lögin séu ófullkomin og það sé spurning hvort það eigi að taka lögin bókstaflega umfram sýnilegan hag og velferð barnsins í ljósi aðstæðna staðar og stundar. Þá segir hann að fjölmiðlaumræðan sé svart hvít, snúið sé úr málum, orð tekin úr samhengi og leitað sé að sökudólgum.

Bréf Geirs er birt hér í heild sinni. Athugið að Geir var sjálfur formaður Prestafélags Íslands, skammstafað PÍ. Hann var sá sem Ólafur Skúlason biskup kærði til ríkissaksóknara fyrir ærumeiðingar ásamt Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur, Stefaníu Þorgrímsdóttur og Guðrúnu Jónsdóttur eldri þáverandi talskonu Stígamóta.

Bréf Geirs:

Sæll síra Gunnlaugur.

Eg þakka þjer fyrir, þú bendir á kjarna málsins. Það er svívirt barn, svívirtar konur og karlar, sem hjer verður að verja og hjálpa með öllum tiltækum ráðum. Það verður ekki gert með því að loka eina farveginum, sem kann að koma að gagni til þess að einhver vitneskja berist einhverjum um svívirðuna. Börn eru ekki líkleg til þess, að vitja prests vegna þessa, þó ekki sje það útilokað. Iðrun brotamanns, er ef till eina vonin, en þá reynir líka á prestinn, drengskap hans og trúnað við það sem heilagt er.

Með því að lýsa því ítrekað yfir, að prestar skuli fara fortakslaust að ákvæði barnaverndarlaga, hafa kirkjuyfirvöldin ónýtt þennan farveg um leið og þau kalla yfir prestana, sem fara að ákvæðum barnaverndarlaganna hættu á ákæru, bæði opinberri og í kjölfarið skaðabóta máli á einkamálasviðinu.

Að hamra svona á þessu, eins og gert hefur verið að undanförnu olli viðbrögðum mínum um helgina.

Eru menn búnir að gleyma því, hvað var undir í Langholts- og biskupsmálinu? Þögguninni? Hvernig allar stofnanir kirkjunnar skipuðu sjer til varnar biskupi?

Hvernig lesa menn samhengið í gangi málsins? Þurfti biskup ekki loks að sæta alvarlegri áminningu siðanefndar PÍ? Fyrir hvað var það? Hann varð uppvís að því, að hafa njósnara í kirkjunum sem ljetu hann vita, hvenær tilteknar konur leituðu prests. Einnig það mál varðaði skriftirnar og nauðsyn þess, að þær færu leynt.

Eg er þakklátur síra Sigríði fyrir að minna á það, að einungis PÍ bilaði ekki í því gerningaveðri sem þá reið yfir. Eg er stoltur af því núna, að hafa haldið mig við principin. Eru menn búnir að gleyma því, að það voru ekki bara Sigrún Pálína og Stefanía, sem voru af biskups hálfu kærðar til ríkissaksóknara. Skv. frjettum fjölmiðla um miðjan marz 1996 var einnig formaður PÍ kærður þangað í sama brjefi. Hví skyldi hann hafa verið í þeim fjelagsskap?

Reiði biskups í minn garð var mest vegna þess, að eg gaf mig ekki með það, að þessar konur áttu rjett á áheyrn. Þær fengu hana hvergi. Biskup sá til þess. Eg áleit það sálusorgunarmál, sem yrði að ganga fyrir öllum hagsmunum manna. Sú krafa, sem hvílir á okkur prestunum um að víkja okkur ekki undan því, að hjálpa fólki, þó ekki sje í öðru en að hlusta, sýna meðlíðan, hver sem í hlut á. Það er nú ekki alltaf þægilegt, eins og síra Sigríður vitnaði um í gær.

Eg var harðlega ávíttur af vinum biskupsins á Vonarstrætisfundinum fyrir það að koma brjefi kvennanna sem hún nefndi, til prestanna, eftir að siðanefndin hafði fjallað um upprunalegt erindi þeirra. Eg taldi þær eiga rjett á áheyrn, hvað sem liði öllu öðru. Það er sárara fyrir mig núna, en eg get komið orðum að, að vera vændur um það að vera í þöggunarliðinu. Þar var eg aldrei og verð aldrei, hvað sem það kann að kosta mig. Þær raunir verða hjóm eitt í samanburði við það sem þessar konur allar hafa þolað, að sjálfri dóttur biskupsins, barninu, ógleymdu.

Er okkur ekki skylt að standa með ekkjunni og munaðarleysingjanum? Hver er munaðarlausari en svívirt barn, nema ef að vera skyldi svívirt kona, sem er ítrekað snúin niður af prestunum, sem hún treysti?

Eg undrast það ekki, að nú sje hagkvæmt að kasta einum fyrir lýðinn. Hlutkesti mitt virðist enn hafa komið upp. Þá verður svo að vera, en grátbroslegt þykir mjer það.

Með kveðju og þakklæti til þín fyrir það að halda þræði um það sem mestu varðar.

Geir Waage

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.