Bréfið allt: „Hún var útgrátin“

Bréfið sem Birgir Ás Guðmundsson organisti sendi kirkjuráði árið 2009 er hér birt í heild sinni:

Heill og sæll! Best að frásögn mín sé í öllum atriðum sannleikanum samkvæmt. Ég geri hér með skýra grein fyrir því sem ég upplifði.

Ég undirritaður, Birgir Ás Guðmundsson, kt.0303393129, var organisti í Bústaðakirkju í fjögur ár, þ.e. á árunum 1972-1977. Og var því nánasti samstarfmaður séra Ólafs Skúlasonar. Það háttaði þannig til að prestur hafði skrifstofu, nokkurs konar kompu í myrkraherbergi enda kirkjan ennþá í byggingu.

Eðli málsins samkvæmt átt ég oft erindi í þetta herbergi. Eitt sinn sem oftar kom ég fyrirvaralaust þar inn (til að athuga með sálmanúmer) bjóst ekki við neinum þar inni. Þegar ég kem inn sé hvar liggur ung og falleg stúlka milli tvítugs og þrítugs á bedda, sem þar, var og Ólafur ofan á henni. Þó var vinstri fótur hans ofan á gólfi.

Stúlkan var fremur klæðlítil í brúnleitum stuttum kjól. Háralitur var dökkur, þá ekki svartur. Hún var útgrátin. Ólafur reis snöggt upp við innkomu mína og var lausgirtur. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið, en prestur brást hinn versti við og vandað mér ekki kveðjurnar fyrir að ryðjast svona inn.

Ólafur átti oft mjög erfitt með að hemja skap sitt. En hann gat mjög fljótt og áreynslulaust brugðið sér í auðmjúkan prest og veitt hlutaðeigandi huggun eins og góður leikari. Ég varð oft vitni að því.

Mér hefur allar götur síðar þótt þetta mjög undarlegt,svo ekki sé nú meira sagt.

Ég taldi mér trú um að hann hefði verið að hugga stúlkuna eftir t.d. dauðsfall.

Mörgum árum síðar,eða þegar kvennamál Ólafs komust í hámæli, kom hann til mín næstum daglega í meðferð. Gerðist ég nokkurs konar sálusorgari hans. Hann var mjög tættur og augnráðið ógnvekjandi og kannski ekki undarlegt eftir þær miklu ásakanir sem á hann voru bornar.

Ég er bundinn trúnaði um það sem okkur fór á milli. En veit þó ýmislegt. Eitt get ég þó sagt hann að hann var haldinn mikilli kynferðislegri þrá eða löngun sem kom fram í óeðli.

Þetta er skrifað samkvæmt bestu samvisku og minni.

Birgir Ás Guðmundsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa frétt.