Skólastjóri segir „stelpuval“ snúast um kynjafræði

„Ef eitthvað er, er þetta jafnréttisfræðsla og kynjafræði,“ segir Sveinbjörn Markús Njálsson skólastjóri Álftanesskóla. Hann segir það ekki hafa verið gamaldags hugsun sem lá að baki þeirri ákvörðun að bjóða upp á valáfangana „strákaval“ og „stelpuval“ fyrir nemendur í unglingadeild Álftanesskóla á komandi skólaári. Hann spyr hvort að hjallastefnan sé gamaldags. Þá segist hann halda að nöfn áfanganna hafi verið endurskoðuð en hans hugmynd hafi verið sú kalla þá „Sjálfsmennsku.“ Hafi málið vakið spurningar fólks um kynjamisrétti segir hann það á misskilningi byggt.

Stelpu- og strákaval

DV barst ábending þess efnis að nemendum í tíunda bekk í Álftanesskóla hafi verið gefin kostur á að taka námskeið undir heitunum „stelpuval“ og „strákaval“ á skólaárinu 2010. Í lýsingu á námskeiðinu „stelpuval“ segir að farið verði í helstu áhugamál stelpna eins og til dæmis hvað sé í tísku, hvernig eigiað farða sig, og hvað fræga fólkið sé að gera. Í „strákavali“ er áherslan hins vegar lögð á bíla, vísindi og önnur„áhugamál drengja.“ Í valbók fyrir tíundu bekkjar nema í Álftanesskóla, á bls. 11-12 birtust upplýsingar um valkúrsana, þeir eru ennþá í valbókinni sem má finna á netinu.

Ekki óheppilegt

„Pælingin var að bjóða upp á val í átt til jafnréttis, sjálfstæðis og ábyrgðar, eins og fjárráð skólans leyfðu“ segir Sveinbjörn og tekur fram að nemendur í 8. - 10. bekk hafi staðið valið til boða. Hann segir þó að nöfnin á valáföngunum hafa verið óeðlileg með tilliti til jafnréttis og telur að nöfnin „strákaval“ og „stelpuval“ hafi verið valin í fljótræði. Þá segir hann að nemendurnir sjálfir hafi valið nöfnin á áfangana. Hann segir foreldra þó ekkert hafa sett út á þetta þegar þeir skrifuðu undir val barna sinna. Sveinbjörn segir að strákum hafi frá upphafi staðið til boða að velja „stelpuval“ eða öfugt.

Sveinbjörn telur ekki óheppilegt að stelpur og strákar séu sett undir þennan hatt. Þegar blaðamaður spurði hann segir hann: „Það var aldrei neitt pælingin. Það var búið að breyta þessu nafni og nemendur vissu alveg á hvaða forsendum þeir völdu þetta.“

Hjallastefnan gamaldags?

Hann segir vanta nýjar upplýsingar um valáfangana og nýjar skýringar: „Ég man ekki hvort að nafninu var breytt á þessum hóp, en þau vissu alveg hvað þau voru að velja í sjálfu sér.“ Hann segir þó að nú séu valáfangarnir í raun bara eitt val: „Það er bara eitt val núna, það er það sem þig vantar. Meiningin er að efla ábyrgð og sjálfstæði einstaklinga og það er grundvallar pælingin í öllu vali hvort sem það er þetta eða eitthvað annað, útfrá stefnu skólans, og ábyrgð og jafnrétti.“

Sveinbjörn segist ekki muna hversvegna þessi nöfn hafi verið valin en það sé ekki gamaldags hugsun sem liggi þar að baki. „Nei þetta er ekki gamaldags hugsun, bara spurning um hvaða meiningu þú sem einstaklingur eða aðrir einstaklingar leggja í það.“ Að lokum spyr Sveinbjörn hvort það sé gamaldags að stelpur fari í sér leikfimi: „Finnst þér gamaldags að stelpur fara í sér leikfimi og strákar í sér leikfimi? Nei alls ekki. Er hjallastefnan gamaldags?“

Eftirfarandi texta er að finna í valbók fyrir tíunda bekk í Álftanesskóla, bls. 11-12:

Stelpuval:

„Í Stelpuvali verður farið í helstu áhugamál stelpna s.s: Hvað er í tísku? Spáð verður í fatnað, skó, liti, förðun og heilsa. Förðun. Undirstöðu námskeið í förðun. Dagsförðun, kvöldförðun og málað eftirmyndum eða jafnvel láta sköpunargleðina ráða ríkjum. Farið verður í umhirðu og þrif húðar. Hvað er fræga fólkið, hér á landi og erlendis, að gera þessa dagana? Skoðuð verða slúðurblöð og farið á netið til að fylgjast vel með öllum.

Strákaval:

„Í Strákavali verður farið í helstu áhugamál drengja s.s: Helstu úrslit helgarinnar. Bílar og bílaíþróttir. Tækni og vísindi“ Þá segir að áfangarnir tveir verði að hluta til kenndir saman og þar verði rætt um ólík viðhorf og áhugamál kynjanna.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.