Beint lýðræði í betri Reykjavík

Opnuð hefur verið heimasíðan betrireykjavik.is en þar gefst borgarbúum kostur á því að kjósa um málefni borgarbúa. Á heimasíðunni gefst Reykvíkingum nú kostur á að koma á framfæri tillögum sínum og hugmyndum við fulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar sem sitja næstu daga leynifundi um helstu málflokka borgarinnar. Verða umræður á vefsíðunni hafðar til hliðsjónar á fundunum.

Á vefsíðunni sem notast við hið svokallaða Skuggaþing eru þegar komnar upp margar hugmyndir, eins og hvort eigi að gera Reykjavík að fyrstu rafbílaborg í heimi, hvort setja eigi upp vefsíðu þar sem íbúar geti beðið um viðgerðir í hverfinu eða hvort fjölga eigi hjólabrautum um alla borg.

Formlegar málefnaviðræður flokkanna hefjast í dag. Fram kemur í fréttatilkynningu frá Besta flokknum að á morgunfundi oddvita Samfylkingarinnar, Dags B. Eggertssonar, og eins af efstu mönnum af lista Besta flokksins, Óttarrs Proppé, voru lögð drög að stundaskrá þeirrar vinnu sem framundan er. „Komist var að samkomulagi um að vinnan færi fram í formi leynifunda."

Í fréttatilkynningunni segir einnig: „Í ljósi reynslunnar, og þess að nýtt fólk er að mæta til starfa í borgarstjórn, ætla Besti flokkurinn og Samfylkingin að taka góðan tíma í viðræðurnar. Þau biðja því fjölmiðlana um að gefa sér og íbúum borgarinnar næði til þess að setja saman trausta málaskrá um betri Reykjavík næstu fjögur árin."

Stundaskráin er svohljóðandi:

„Næstu daga munu borgarfulltrúar og félagar flokkana hittast á röð leynifunda þar sem eftirfarandi málaflokkar verða til umfjöllunar:

Þriðjudagur 1. júní: Leynifundur um atvinnumál, leikskóla- og menntamál, skipulagsmál, velferðarmál, og fjármál Reykjavíkurborgar.

Miðvikudagur 2. júní: Leynifundur um auðlinda- og umhverfismál, menningarmál, mál Orkuveitu Reykjavíkur og annarra fyrirtækja borgarinnar, og samgöngumál.

Fimmtudagur 3. júní: Leynifundur um tólfta málaflokkinn: Breytingar á stjórnskipan borgarinnar og aukin áhrif almennings á stjórn hennar. Verkaskipting.

Leynifundum verður bætt við eftir því sem þurfa þykir uns verkinu er lokið."

Betri Reykjavík

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.