Lárus Welding harmar málsókn skilanefndar

Mynd: Mynd DV

Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, segist harma það að skilanefnd bankans hafi ákveðið að stefna honum og fleiri fyrrum starfsmönnum bankans. Þetta segir Lárus í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér vegna málsins.

Eins og DV greinir frá í dag hefur skilanefnd Glitnis höfðað sex milljarða króna skaðabótamál gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Pálma Haraldssyni sem voru meðal helstu eigenda bankans. Auk þess er Lárusi Welding, fyrrverandi forstjóra bankans, stefnt og þremur núverandi lykilstarfsmönnum Íslandsbanka, þeim Rósant Má Torfasyni, Guðnýju Sigurðardóttur og Magnúsi A. Arngrímssyni.

Stefnurnar á hendur sexmenningunum eru að einhverju leyti unnar á grundvelli rannsóknar fjölþjóðlega fyrirtækisins Kroll sem mánuðum saman hefur starfað í þágu skilanefndar og slitastjórnar Glitnis. Árni hefur áður óskað þess að niðurstöður rannsóknar Kroll verði birtar opinberlega og hefur samið við fyrirtækið um að svo verði gert eigi síðar en í sumar.

Í yfirlýsingu Lárusar segir hann meðal annars að stefnan sé tilkomin vegna lánveitingar til FS38 ehf. „Í þessum sem og öðrum viðskiptum unnum við starfsmenn bankans af fullum heilindum og fullkomlega innan okkar heimilda samkvæmt reglum bankans með það að markmiði að verja hagsmuni hans í því gríðarlega erfiða markaðsumhverfi sem ríkti sumarið 2008,“ segir Lárus og heldur áfram:

„Fyrir liggur að í þessum viðskiptum, sem voru að stærstum hluta framlenging á áður ótryggðu láni og að minni hluta ný lánveiting, batnaði heildartryggingastaða bankans verulega gagnvart þessum viðskiptavin. Ég tel því kröfugerð bankans á hendur mér ekki studda haldbærum rökum og harma sérstaklega að skilanefnd bankans kjósi að draga almenna starfsmenn bankans inn í þessi málaferli, sem verða fyrirsjáanlega mjög tímafrek og kostnaðarsöm,“ segir Lárus og bætir við að hann muni ekki tjá sig frekar um málið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.