Mega ekki eignast börn

Hjónin Svandís Rós og Vésteinn Ingibergsson hafa hugleitt að fara til annarra landa til að geta notast við staðgöngumóður til að eignast barn. Svandís gekkst undir líffæraskiptaaðgerð fyrir sex árum og má því ekki ættleiða. Hjónin eru ósátt við ættleiðingarlögin og segja furðulegt að einstaklingar megi ættleiða en ekki pör þar sem annað hafi verið veikt.

„Ég veiktist alvarlega árið 2003 sem endaði með líffæraskiptiaðgerð sem veldur því að meðganga gæti orðið mér og barninu hættuleg. Vegna aðgerðarinnar fáum við hjónin ekki að ættleiða svo staðgöngumæðrun er okkar eini möguleiki á að eignast barn,“ segir Svandís Rós Hertervig en hún og eiginmaður hennar, Vésteinn Ingibergsson, eru ein af pörunum sem stofnuðu Staðgöngu, stuðningsfélag staðgöngumæðrunar á Íslandi.

Svandís segist vera við hestaheilsu í dag en þau Vésteinn eru ósátt við ættleiðingarreglurnar og þá staðreynd að staðgöngumæðrun skuli vera ólögleg. „Við vildum með glöðu geði ættleiða barn en samkvæmt reglum má hvorugt okkar hafa farið í líffæraskiptiaðgerð. Ef svo ólíklega vildi til að okkur yrði hleypt í gegn hér heima yrði umsókn okkar mjög líklega stoppuð úti. Jafnvel eftir að hafa velst um í kerfinu um árabil,“ segir Svandís og Vésteinn tekur undir: „Það er mjög sérstakt að einstaklingar geti ættleitt barn en þegar um par, þar sem annað hefur verið veikt, ræðir er það ekki hægt,“ segir hann og hún bætir við: „Eins finnst mér skrítið að einstaklingar geti farið í tæknifrjóvgun og keypt sæði og jafnvel egg, ef þau lög ganga í gegn, en staðgöngumæðrun verði enn bönnuð. Það verður þá það eina útistandandi. Auðvitað eru þetta stórar siðfræðilegar spurningar og margir efast um rétt barnsins varðandi uppruna þess en margar rannsóknir hafa sýnt að þótt barnið sé til komið vegna tæknifrjóvgunar eða staðgöngumæðrunar er það ekkert tiltökumál.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.