Kristján Árnason hlýtur Menningarverðlaun DV í bókmenntum

Mynd: Mynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson

Verðlaunahafar Menningarverðlauna DV 2009 voru tilkynntir við athöfn í Iðnó sem hófst á sjötta tímanum. Í bókmenntaflokknum hlaut Kristján Árnason verðlaunin fyrir þýðingu sína á Ummyndunum Óvíds, sýningin Jesú litli var verðlaunuð í flokki leiklistar og hönnunarhópurinn Vík Prjónsdóttir fékk hönnunarverðlaunin.

Heiðursverðlaunin hlaut Jórunn Viðar, tónskáld og píanóleikari. Hljómsveitin Hjálmar fékk flest atkvæði í netkosningu verðlaunanna.

Verðlaunahafarnir voru eftirtaldir:

Bókmenntir

Kristján Árnason

Fyrir þýðingu sína á Ummyndunum Óvíds. Mál og menning, 2009.

Rökstuðningur dómnefndar:

Afbragðsgóð þýðing á einu af lykilverkum vestrænna bókmennta hefur litið dagsins

ljós í fyrsta sinn. Kristján Árnason hefur skilað þýðingu sem nautn er að lesa og

flytur nútímalesendur í goðsagnaheim fornaldar, bæði með þýðingu sinni og

greinagóðum inngangi. Ummyndanir Óvíds eru eitt af stærstu og merkustu verkum

heimsbókmenntanna sem lesendur og ekki síður önnur skáld og listamenn geta nú notið

í íslenskum búningi.

Byggingarlist

Bók um Manfreð Vilhjálmsson arkitekt

Útgefandi: Hið íslenska bókmenntafélag

Ritstjórn: Halldóra Arnardóttir og Pétur H. Ármannsson

Hönnun: Halldór Þorsteinsson

Ljósmyndir: Guðmundur Ingólfsson

Rökstuðningur dómnefndar:

Bókin er löngu tímabært yfirlit yfir verk Manfreðs Vilhjálmssonar frá rúmlega

hálfrar aldar starfsferli. Þar má meðal annars sjá sum af hans merkustu verkum sem

þegar hafa þurft að víkja fyrir fjöldaframleiddum nútímabyggingum. Bókin er

mikilvæg áminning til íslensks samfélags um að líta sér nær og þekkja sinn styrk

í hógværum snillingum heima fyrir áður en gáttin er opnuð gagnrýnislaust út á

við. Í bókinni eru þrjár vandaðar greinar eftir Halldóru Arnardóttur, Aðalstein

Ingólfsson og Pétur H. Ármannsson, sem fjalla um verk Manfreðs frá þremur ólíkum

sjónarhornum. Fjöldi mynda prýðir bókina og eru flestar eftir Guðmund Ingólfsson.

Verkið er allt hið vandaðasta og unnið af stakri fagmennsku og alúð.

Fræði

Gavin Lucas og Fornleifastofnun Íslands

Fyrir Hofstaðaverkefnið og bókina Hofstadir, Excavations of a Viking Age Feasting-hall.

Rökstuðningur dómnefndar:

Langt er síðan fyrst var grafið eftir fornleifum í bæjarrústum á Hofstöðum í

Þingeyjarsýslu, en 1992 hófst þar mjög ítarleg rannsókn sem Fornleifastofnun

Íslands tók að sér að annast. Í áratug var grafið þar af mikilli nákvæmni og

nú í árslok 2009 komu niðurstöðurnar út í mjög vandaðri skýrslu á ensku, en

með langri íslenskri samantekt í lokin. Auk þess sem þessi rannsókn var í sjálfu

sér afar vönduð fræðilega hefur hún skilað að mörgu leyti nýjum og nýstárlegum

niðurstöðum um byggð á Íslandi á landnámsöld.

Hönnun

Vík Prjónsdóttir

Rökstuðningur dómnefndar:

Vík Prjónsdóttir varð til fyrir fimm árum síðan þegar hönnuðirnir Egill Kaleví

Karlsson, Þuríður Rós Sigurþórsdóttir, Brynhildur Pálsdóttir, Guðfinna Mjöll

Magnúsdóttir og Hrafnkell Birgisson komu saman til að búa til framleiðslu fyrir

verksmiðju Víkurprjóns í Vík í Mýrdal. Hópurinn hafði að leiðarljósi að nýta

þekkingu og vélarkost Víkurprjóns og sameina hann hugviti og framsýni hönnuðanna.

Þarna urðu til frábærar vörur eins og Selshamurinn og Skegghúfan sem hafa vakið

athygli út um allan heim fyrir frumleika og gæði. Ný og glæsileg vörulína Víkur

leit síðan dagsins ljós um daginn og er ljóst að framtíð þessa verkefnis er

björt.

Leiklist

Bergur Þór Ingólfsson, Halldóra Geirharðsdóttir og Benedikt Erlingsson

Fyrir Jesú litli í Borgarleikhúsinu.

Rökstuðningur dómnefndar:

Bergur Þór Ingólfsson og Halldóra Geirharðsdóttir hafa á undanförnum árum

þróað trúðaparið Barböru og Úlfar í ýmsum sýningum. Þau hafa þar kveikt

nýjan áhuga á trúðleik hér á landi og skapað honum áður óþekktan sess innan

íslensks leikhúss. Þetta starf þeirra hefur sjaldan borið betri ávöxt en í

sýningunni Jesú litli undir leikstjórn Benedikts Erlingssonar.

Myndlist

Listasafn Reykjavíkur Fyrir sýningaröð í D-sal

Rökstuðningur dómnefndar:

Í febrúar 2007 hleypti Listasafn Reykjavíkur af stokkunum sýningaröð í D-sal

Hafnarhússins. Þar hefur ungum og efnilegum myndlistarmönnum sem ekki hafa áður

haldið einkasýningar í söfnum verið gefið tækifæri til að sýna, vinna með

sýningarstjórum safnsins og ná til þess breiða hóps gesta sem í safnið kemur.

Dómnefnd telur þetta framtak safnsins hafa heppnast ákaflega vel og verið lyftistöng

fyrir unga listamenn og fyrir myndlistarlífið í landinu yfirleitt. Það er ungum

listamönnum mikilvægt að kynnast því að vinna í faglegu safnaumhverfi og ekki

síður mikilvægt að gestir fái að skoða verk ungra og metnaðarfullra listamanna í

aðgengilegu rými borgarlistasafnsins. Þá hefur safnið gefið út yfirlitsrit um

sýningaröðina.

Kvikmyndir

Íslensk alþýða

Stjórnandi og framleiðandi: Þórunn Hafstað

Rökstuðningur dómnefndar:

Það er ávallt gleðiefni þegar fyrsta kvikmynd ungs kvikmyndahöfundar heppnast svo

vel að áhorfandinn fær nýja sýn á veruleikann. Heimildamyndin Íslensk alþýða

eftir Þórunni Hafstað er þannig mynd. Þórunn, sem nýlokið hefur námi í

sjónrænni mannfræði, beinir sjónum að verkamannabústöðunum við Hringbraut og

nokkrum íbúum þeirra. Áherslan er bæði skemmtileg og nýstárleg; þetta er saga um

samskipti fólks við það rými sem það hrærist í. Með því að skoða þessi

samskipti nær Þórunn að sýna okkur venjulegt fólk í því samhengi sem við leiðum

oftast hjá okkur. Smáatriði opinbera óvæntar hliðar. Hið ofur hvunndagslega reynist

áhugaverðara en áhorfandinn ætlar. Húsið hefur sál og aðgát skal höfð í allri

nærveru og umgengni. Myndin vakti mikla athygli á Skjaldborg, hátíð íslenskra

heimildamynda, síðastliðið vor og á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í haust.

Vonandi ber Sjónvarpið gæfu til að sýna hana sem fyrst, enda á hún fullt erindi

við íslenska alþýðu.

Tónlist

Daníel Bjarnason

Rökstuðningur dómnefndar:

Árið 2009 var einstaklega fjölbreytt og viðburðaríkt hjá tónskáldinu og

hljómsveitarstjóranum Daníel Bjarnasyni. Í febrúar stjórnaði hann

Sinfóníuhljómsveit Íslands á sínum „debut“ tónleikum á Myrkum músikdögum

þar sem píanókonsert hans, Processions, var frumfluttur fyrir fullu húsi. Í

kjölfarið fylgdu: Útsetningar fyrir Ólöfu Arnalds, upptökur með Nordic Affect á

verki Huga Guðmundssonar, tónlist við dansverk Gunnlaugs Egilssonar,

Styggðarstjórnun, á Reykjavik Dance Festival, upptökur og tónleikar með

Sinfóníuhljómsveit Íslands, tónleikar á Icelandic Airwaves með eigin verk og

tónleikar á Listahátíð Reykjavíkur og Icelandic Airwaves með Hjaltalín,

tónlistarstjórn í uppfærslu Íslensku óperunnar á Ástardrykknum og margt fleira.

Undir lok ársins kom út fyrsta sólóplata Daníels, Processions, sem fór svo í

dreifingu erlendis í febrúar á þessu ári og hefur platan fengið frábæra dóma.

Heiðursverðlaun

Jórunn Viðar

Heiðursverðlaun Menningarverðlauna DV árið 2009 fær Jórunn Viðar, tónskáld og píanóleikari, fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar. Framlag Jórunnar verður seint metið að verðleikum, ekki síst fyrir þátt hennar í að ryðja veg íslenskra kvenna í tónlistarsköpun og í flutningi og útsetningum á tónlist á ferli sem spannar hátt í sjö áratugi. Meðal þekktra verka Jórunnar eru jólalögin Jól og Það á að gefa börnum brauð, Kall sat undir kletti, Únglíngurinn í skóginum við texta Halldórs Laxness, ballettinn Eldur og tónlistin við kvikmyndina Síðasti bærinn í dalnum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.