Afskriftir auðmanna

Valinn hópur stórra lántakenda hjá bönkunum hefur fengið skuldir sínar afskrifaðar. Þær nema mörg hundruð milljörðum króna. Enginn hefur enn náð að toppa Ólaf Ólafsson með 88 milljarða króna afskriftir en Baugsfeðgar hafa fengið um 30 milljarða afskrifaða. Í helgarblaði DV er að finna úttekt á afskriftum auðmanna.

Katrín Pálsdóttir

Katrín Pálsdóttir, forstjóri Lýsis, á eignarhaldsfélagið Hnotskurn ásamt Gunnlaugi Sævari Gunnlaugssyni, fjárhaldsmanni Guðbjargar Matthíasdóttur í Vestmannaeyjum. Félagið er nú að semja um skuldir sínar sem nema 2.800 milljónum króna. Eignir félagsins eru hins vegar innan við 10 prósent af skuldum þess eða um 244 milljónir króna sem eru fasteignir og lóðir.

Skuldirnar eru til komnar vegna misheppnaðra fjárfestinga í FL Group. Lögmaður félagsins hefur ekki viljað staðfesta að afskriftir hafi átt sér stað en það liggi í hlutarins eðli að einhverjar afskriftir fari fram hjá félaginu. Katrín þurfti að víkja úr stjórn Glitnis í febrúar 2008, samkvæmt heimildum DV, þar sem Hnotskurn var komið í vanskil.

Magnús Kristinsson

Magnús Kristinsson, útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, fékk stóran hluta af tæplega 50 milljarða króna skuld eignarhaldsfélaga hans afskrifaðan eftir að hann samdi við skilanefnd Landsbankans. Nákvæmar upplýsingar um upphæðir afskrifanna liggja ekki fyrir. Skilanefndin leysti ekki til sín kvóta Magnúsar, sem var ekki í persónulegum ábyrgðum fyrir langmestum hluta skulda sinna.

Bjarni Ármansson

Bjarni Ármannsson, fjárfestir og fyrrverandi forstjóri Glitnis, komst að samkomulagi við skilanefnd Glitnis um afskriftir á rúmlega 800 milljóna króna skuldum eignarhaldsfélagsins Imagine Investment sem er í eigu hans, við bankann. Bjarni sagði í samtali við DV að lánið hefði verið tekið hjá Glitni í lok 2007 til að fjármagna kaup félagsins á 12 prósenta hlut í Glitni Property Holding. „Til að gera langa sögu stutta þá gekk þetta bara illa og tekjurnar hrundu,“ útskýrði Bjarni. Það kom þó ekki að sök því hann þurfti ekki að borga.

Baugsfeðgar

Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes Jónsson stofnuðu til tugmilljarða króna skulda í tengslum við Haga, Gaum, Baug og 1998 ehf. Þegar 30 milljarða lán sem 1998 ehf. tók hjá Kaupþingi sumarið 2008 var fært frá skilanefnd Kaupþings yfir til Nýja Kaupþings og nú Arion banka, var lánið metið á 17 milljarða. Það var sem fyrr segir 30 milljarðar króna þegar það var tekið, en miðað við vísitöluþróun stóð það í 48 milljörðum í lok síðastliðins árs. Munurinn er því um 30 milljarðar króna, bæði feðgarnir og Arion banki neituðu því að að skuldir 1998 ehf. yrðu afskrifaðar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.