Stuðningsmaður Gunnars fékk tugi milljóna

Halldór Jónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Steypustöðvarinnar, fékk greiddar rúmar sjötíu milljónir króna frá Kópavogsbæ á fimm ára tímabili. Mest fékk hann greitt í bæjarstjóratíð Gunnars I. Birgissonar en Halldór er þekktur stuðningsmaður bæjarstjórans fyrrverandi.

Milljónirnar hefur Halldór fengið í gegnum fyrirtæki sitt, Hallstein ehf., vegna hönnunar og eftirlits ýmissa bygginga í Kópavogi frá árinu 2003 til ársins 2008. Á tímabilinu skrifaði hann á bæinn 64 reikninga sem samanlagt fengust greiddir að upphæð 71,5 milljónir króna. Sé litið til einstakra verkefna fékk Halldór greiddar tæpar 16 milljónir fyrir hönnun og eftirlit með Vatnsendaskóla, tvívegis tæpar 14 milljónir fyrir annars vegar sambýli við Roðasali og hins vegar unglingaheimili við Hábraut og tæpar 11 milljónir fyrir bygginguna við Fannborg 2. Af heildinni fékk fyrirtæki Halldórs stærstan hluta greiddan í bæjarstóratíð Gunnars eða tæpar 50 milljónir króna.

Grunað bæjarstjóraefni

Gunnar, fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogsbæjar, hefur enn stöðu sakbornings í rannsókn efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra vegna alvarlegra lögbrota. Hin meintu brot áttu sér stað í bæjarstjóratíð hans og snúa að óeðlilegum lánveitingum Lífeyrissjóðs Kópavogsbæjar til sveitarfélagsins. Gunnar sat þá bæði sem bæjarstjóri og stjórnarmaður í lífeyrissjóðnum. Þá hefur fyrirtæki í eigu dóttur Gunnars Birgissonar bæjarstjóra í Kópavogi verið í tugmilljónaviðskiptum við Kópavogsbæ þau ár sem Gunnar hefur gengt þar æðstu embættum.

Gunnar býður sig fram sem bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem fram undan eru. Þar ætlar hann sér aftur á toppinn.

Verkefni og greiðslur til Hallsteins ehf.:

Vatnsendaskóli - 15,7 milljónir

Sambýli við Roðasali - 13,9 milljónir

Unglingaheimili við Hábraut - 14 milljónir

Fannborg 2 - 10,7 milljónir

Hjallaskóli - 4,2 milljónir

Viðbygging við MK - 5,2 milljónir

Hörðukór 2 - 7,8 milljónir

Samtals: 71,5 milljónir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.