Finnbogi segir lánið hafa verið neyðarlán Icelandic Group

Finnbogi Baldvinsson, forstjóri Icelandic Group, hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar umfjöllunar Kastljóssins í gær um það að Landsbankinn hafi losað hann undan persónulegum ábyrgðum upp á tæpan einn og hálfan milljarð stuttu eftir hrun. Finnbogi segir lánið ekki hafa verið til sín heldur var um neyðarlán að ræða sem Icelandic Group hafi tekið í janúar árið 2008 og fyrirtækið síðan greitt upp.

„Ég var einn af 5 aðilum sem fengnir voru til að skrifa upp á ábyrgðir sem hluthafar í félaginu, enda hefði lánið ella ekki fengist og fyrirtækið farið í þrot. Eins og eðlilegt er með slíkar ábyrgðir þá falla þær úr gildi þegar lán eru greidd upp,“ segir í yfirlýsingu Finnboga.

Hann segir alrangt að persónlegar skuldir hans séu í kringum tíu milljarða. Nákvæm upphæð lánsins á gengi dagsins í dag sé 4.264 milljónir króna. „Ekkert hefur verið afskrifað af mínum lánum. Eins og fram hefur komið var hluti þessa láns með ábyrgðum frá bróður mínum og frænda og það tap sem á þá fellur vegna mín er mér þung byrði, þyngra en mitt eigið tap, þótt stórt sé. Ég harma það einnig ef Landsbankinn tapar á þessum viðskiptum,“ segir í yfirlýsingunni.

Yfirlýsing Finnboga:

Vegna umfjöllunar Kastljóss fyrr í kvöld vil ég undirstrika eftirfarandi staðreyndir.

1. Það er alrangt sem skilja mátti af umfjölluninni og endurtekið er á vefmiðlum í kvöld að persónulegum ábyrgðum hafi verið aflétt af 1,5 milljarða láni til mín. Lánið rann ekki til mín, heldur var um að ræða neyðarlán sem Icelandic Group tók í janúar 2008 og fyrirtækið hefur síðan greitt upp. Ég var einn af 5 aðilum sem fengnir voru til að skrifa upp á ábyrgðir sem hluthafar í félaginu, enda hefði lánið ella ekki fengist og fyrirtækið farið í þrot. Eins og eðlilegt er með slíkar ábyrgðir þá falla þær úr gildi þegar lán eru greidd upp.

2. Það er einnig alrangt sem haldið hefur verið fram að persónulegar skuldir mínar séu í kringum 10 milljarðar króna. Nákvæm upphæð lánsins eins og það stendur á gengi dagsins í dag, er 4.264 milljónir króna, ekkert hefur verið afskrifað af mínum lánum. Eins og fram hefur komið var hluti þessa láns með ábyrgðum frá bróður mínum og frænda og það tap sem á þá fellur vegna mín er mér þung byrði, þyngra en mitt eigið tap, þótt stórt sé. Ég harma það einnig ef Landsbankinn tapar á þessum viðskiptum.

3. Til að fyrirbyggja misskilning er mikilvægt er að það komi skýrt fram að það er nýtt stjórnendateymið sem nú stýrir Icelandic. Óveðursskýin voru farin að hrannast upp í kringum fyrirtækið snemma árs 2008 og það hafði skilað tapi á hverju einasta ári í 4 ár. Skuldir höfðu hlaðist upp og kostnaður var mikill. Lánadrottnar Icelandic fóru þess á leit við mig að koma að því að leysa vanda fyrirtækisins. Ég tók við starfi forstjóra (með starfsstöð í Þýskalandi), Ingvar Eyfjörð kom nýr inn í stól aðstoðarforstjóra (með aðsetur á Íslandi) og Finnbogi Gylfason tók við starfi fjármálastjóra. Á þessum tíma var staðan sú að Landsbankinn átti 58 milljarða kröfu á Icelandic sem byggðist á litlum eða engum veðum; en fasteignir, vélar og tæki, birgðir og viðskiptakröfur voru veðsettar hátt í 20 erlendum lánastofnunum. Tap Landsbankans hefði því getað orðið gífurlegt ef ekkert hefði verið að gert. Rétt er að árétta að hingað til hefur enginn tapað á Icelandic Group nema fyrrverandi hluthafar. Birgjar okkar í sjávarútvegi, landið um kring, hafa ávallt fengið að fullu greitt fyrir afurðir sínar. Það er mikils vert.

4. Ég vil vekja athygli á annarri og mikilvægari hlið þessa máls. Stóra fréttin er ekki tæknileg útfærsla þess hvernig eignarhald félagsins var leyst við afar erfiðar aðstæður í október 2008. Þar skiptir fyrst og fremst máli að hlutafé allra fyrri hluthafa var þurrkað út, mitt eigið þar meðtalinn. Stóra fréttin er að tekist hafi að bjarga þessu sögufræga fyrirtæki og með umfangsmiklum aðhaldsaðgerðum að snúa rekstri þess við. Rétt er að ítreka að gengi krónunnar hafði ekkert með það að gera, því bæði tekjur og skuldir eru í erlendri mynt. Fyrirtæki er ekkert annað en vinna venjulegs fólks. Þessi mikli viðsnúningur Icelandic er sameiginlegt afrek starfsmanna og lánveitenda, hér heima og erlendis. Þar eiga forsvarsmenn Landsbankans sérstakt hrós skilið, hversu mikið sem barið er á þeim ágætu mönnum í dag.

5. Stórum hluta umfjöllunar Kastljóss var eytt í að fjalla um launamál mín. Ég hef verið búsettur í Þýskalandi meira og minna undanfarin 15 ár og það hefur því ekki hvarflað að mér að reikna laun mín yfir í krónur. 30.000 evrur eru því í heimilisbókhaldi mínu 30.000 evrur. Þetta eru góð laun, en þess ber þó að geta að laun mín eru lægstu forstjóralaun sem greidd hafa verið hjá fyrirtækinu frá árinu 2003 í evrum talið. Ég vona að störf mín sýni að ég sé verður þessara launa.

6. Ljóst er að það eru margir sem sitja um eignir bankanna. Ekki síst ásælast þeir góðar eignir eins og Icelandic Group. Þessir aðilar vilja helst borga sem allra minnst fyrir þessar eignir. Nú kann að vera að þeir telji það vera leið að markmiði sínu að gera starf okkar í fyrirtækinu tortryggilegt. Hagsmunir þjóðarinnar, sem á Landsbankann, er hins vegar að sem mest fáist fyrir fyrirtækið og að við getum haldið áfram að láta það borga skuldir sínar tilbaka.

Sjálfsagt er að fjölmiðlar fjalli um málefni Icelandic Group og það er mikilvægt að þeir veiti bönkunum öflugt aðhald í endurreisnarstarfi þeirra. Það er hins vegar ekkert í rekstri Icelandic Group sem ekki þolir dagsljósið. Ég er tilbúinn að svara hverjum þeim spurningum sem menn kunna að hafa, hvort heldur um mín mál eða málefni fyrirtækisins.

Ég er fyrst og fremst ákaflega stoltur af því sem við höfum gert frá því að núverandi stjórnendur tóku við fyrirtækinu. Ég er stoltur af því að hafa náð að bjarga verðmætum fyrir kröfuhafa (þ.m.t. Landsbankann). Ég er stoltur af því að eiga þátt í að hið mikla markaðs- og uppbyggingarstarf sem unnið hefur verið í 70 ára sögu Icelandic haldi áfram. Stoltastur er ég af því að við eigum enn Íslendingar, í gegnum Icelandic Group, frábæran markaðsaðgang með okkar sjávarafurðir á þeirri stundu sem við þörfnumst þess mest við.

Reykjavík 10. feb 2010

Finnbogi Baldvinsson, forstjóri Icelandic Group

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.