Bubbi á leynifundi með Baugsfeðgum: „Nú er ég fúll út í ykkur“

„Nú er ég fúll út í ykkur,“ sagði Bubbi Morthens tónlistarmaður þegar blaðamaður DV leitaði eftir viðbrögðum Bubba við mynd sem Eiríkur Jónsson birti á bloggsíðu sinni í gær. Á myndinni sést Bubbi ásamt feðgunum Jóhannesi Jónssyni, oftast kenndur við Bónus, og Jóni Ásgeiri. „Ég hef ekkert við ykkur að tala,“ sagði Bubbi áður en hann skellti á.

Í viðtali sem spilað var á Rás 2 í gærmorgun sagði Bubbi að ekkert óeðlilegt væri að þiggja greiðslu fyrir að skrifa fallega um einhvern. Nefndi hann þá sérstaklega að það væri alls ekki slæm hugmynd að Jóhannes myndi borga honum fyrir að ferðast um landið og tala vel um búðirnar hans.

Þessi ummæli Bubba hafa vakið hörð viðbrögð og uppskorið mikla gagnrýni. Bubbi hefur einnig verið gagnrýndur fyrir skrif sín á bloggsíðu sinni en þar hefur hann jafnan tekið upp hanskann fyrir útrásarvíkinga. Hann hefur einnig verið meðal helstu gagnrýnenda Davíðs Oddsonar. Í viðtalinu á Rás 2 í gær líkti hann Davíð við Genghis Khan.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.