Eve Online malar gull fyrir CCP

Ársreikningur tölvuleikjaframleiðandans CCP sýnir afar sterka stöðu fyrirtækisins. Eiginfjárstaðan er góð í samanburði við skuldir og fyrirtækið bætti við um 100 starfsmönnum á árinu 2009 og áskrifendum fjölgaði.

Íslenska tölvuleikjafyrirtækið CCP skilaði hagnaði upp á nærri 6,2 milljónir dollara, um 750 milljónir króna, í fyrra. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins, sem meðal annars býður upp á nettölvuleikinn Eve Online, fyrir árið 2009.

Ársreikningnum var skilað til ársreikningaskrár ríkisskattstjóra þann 3. október síðastliðinn. Ekkert í ársreikningi fyrirtækisins bendir til annars en að það sé rekið með miklum sóma.

Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir er stærsti hluthafi CCP í gegnum eignarhaldsfélagið NP ehf. með rúmlega 30 prósenta eignarhlut. Eignarhaldsfélagið Teno Investments í Lúxemborg kemur næst á eftir með tæplega 24 prósenta eignarhlut og einn af upphaflegum stofnendum CCP, Sigurður Reynir Harðarson, á rúm 10 prósent. Aðrir ótilgreindir hluthafar deila svo með sér 35,5 prósenta hlut.

Formaður stjórnar CCP er Vilhjálmur Þorsteinsson fjárfestir en meðal annarra stjórnarmanna má nefna viðskiptafélaga Björgólfs Thors, Birgi Ragnarsson. Í ársreikningnum segir að stjórn CCP hafi ákveðið að greiða ekki út arð til hluthafa fyrir árið 2009.

Í ársreikningnum kemur fram að á árinu 2009 hafi 34 prósenta aukning orðið á áskrifendafjölda Eve Online víða um heim. Áskrifendur voru orðnir 320 þúsund, fleiri en búa á Íslandi.

Nánar um málið í DV í dag

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.