Mótmælti í Landsbankanum: „Þeir hentu mér í gólfið og drógu mig út“

„Ég fór inn í Landsbankann, gekk þar inn og kallaði yfir alla: „Halldór Ásgrímsson og hans fjölskylda fékk niðurfellda 2,6 milljarða og ætlið þið að standa undir þessum greiðslum við fólkið,“ segir Alma Jenný Guðmundsdóttir sem var snúin niður af tveimur öryggisvörðum í Landsbankanum í dag þegar hún mótmælti niðurfellingu skuldar sjávarútvegsfyrirtækis sem er að hluta til í eigu fyrrverandi forsætisráðherrans Halldórs Ásgrímssonar.

„Það næsta sem gerist er að öryggisverðirnir koma og fara að toga mig út. Ég neitaði því og sagði að það væri málfrelsi á Íslandi, ég fer ekkert út, þetta er ríkisbanki og ég á hann líka. Þeir hentu mér í gólfið og drógu mig út,“ segir Alma Jenný.

Var talin hættuleg

Hún tók þátt í mótmælunum fyrir utan Alþingi í dag og var litið til Landsbankans og ákvað að beina mótmælum sínum þangað. Hún segir öryggisverði hafa lokað bankanum eftir að hún var dregin þaðan út. „Ég var víst svo hættuleg og vildu þeir meina að ég hefði varið drukkin, sem var sko aldeilis ekki,“ segir Alma.

Hún segir öryggisverðina hafa kallað á lögregluna. „Þeir gerðu mér ekkert nema að einn var eitthvað leiðinlegur. Allajafna gerðu þeir mér ekkert. Ég sagði þeim bara eins og var, að mér þætti full ástæða til að mótmæla á þessum stað. Þeir tóku því bara.“

Hún segist hafa kallað eftir hjálp þegar öryggisverðirnir drógu hana út og hún komin til lögreglunnar. „Ekki vildi ég vera ein í þessu. Það kom þarna ungur strákur sem æsti sig svakalega. Ég bað hann um að gera það ekki,“ segir Alma sem útskýrði fyrir unga drengnum að lögreglan hefði ekki gert neitt af sér heldur voru það öryggisverðirnir.

Fékk lán fyrir eggjabakka

Alma segist hafa reynt að fara og kaupa egg til að grýta í Landsbankann en hún átti ekki pening. „Þannig að mér var gefið fyrir eggjabakka og ég henti eggjum í bankann.“

Hún vonar að þetta verði til þess að fólk fari og láti bankana finna fyrir því. „Þrátt fyrir að ríkisstjórnin standi sig illa þá vinna bankarnir ekkert eftir hennar tilmælum.“ Hún segist hafa fengið fullt af þökkum fyrir vegna þessara mótmæla frá venjulegu fjölskyldufólki eins og henni.

Hún segir það ótækt að á sama tíma og verið sé að skerða niður ellilífeyrisréttindi sé verið að niðurfella skuldir hjá sjávarútvegsfyrirtæki sem hafði borgað sér arð. „Þetta er ríkisbanki sem hagar sér svona."

Fjölskyldu Halldórs gefnir 2,6 milljarðar

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.