Stiglitz: Hræðsluáróður AGS tóm vitleysa

„Þetta er bara vitleysa,“ segir Joseph Stiglitz, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, um hræðsluáróður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Íslendinga. Hann segir það alls ekki liggja beinast við að hér fari allt í kalda kol ef Íslendingar standa ekki fyllilega við Icesave-skuldbindinganar.

Stiglitz hefur gagnrýnt Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fyrir að fylgja pólitískri afstöðu valdahafanna í sjóðnum frekar en hagfræðilegum rökum. Hann þekkir vel til á Íslandi og vann skýrslu fyrir Seðlabanka Íslands árið 2001 þar sem hann varaði við fasteignabólunni.

Stiglitz var gestur Egils Helgasonar í Silfri Egils í Ríkissjónvarpinu fyrir stundu.

Stiglitz segir AGS alls ekki hafa unnið af sanngirni í öllum þeim löndum þar sem hann gefur sig út fyrir að hafa komið til bjargar, og nefnir sem dæmi að í Argentínu hafi AGS verið talsmaður kröfuhafanna.

Hins vegar virðist honum sem AGS hafi veitt Íslendingum meira frjálsræði en öðrum löndum sem sjóðurinn hefur veitt lán, mögulega vegna þess hversu öflugt lýðræðisríki Ísland er.

Eftirlitsaðilar á Íslandi brugðust

Í tíð kapítalismans hefur tíðkast að einkavæða gróða en félagsvæða tap. Einmitt sú staða hefur komið upp hér á landi, þar sem bankarnir græddu þegar vel gekk en nú á almenningur að blæða þegar siglt hefur verið í strand. Stiglitz segist almennt andvígur þessari félagsvæðingu tapsins.

Hann tekur fram að þó hann líti að stærstum hluta á Ísland sem fórnarlamb frjálss markaðskerfis þá sé ábyrgðin einhver þar sem eftirlitsaðilar sinntu ekki skyldum sínum. Hins vegar segir hann það sama gilda um eftirlitsaðila í Bretlandi sem hefðu getað komið í veg fyrir útrás íslensku bankanna þar í landi.

Skuldaniðurfelling kemur til greina

Að mati Stiglitz er ábyrgð íslensku bankanna mikil þegar kemur að bankahruninu og algjörlega ósanngjarnt að hinn almenni borgari sitji í súpunni vegna vanhæfni þeirra. Hann bendir á að starfsfólk bankanna voru þeir sem ráðlögðu fólkinu í landinu þegar kom að fjárfestingum og fullyrðir að bankarnir hafi selt fólki gallaða vöru þegar það var hvatt til ákveðinna fjárfestinga. Því finnst honum ekki hægt að útiloka skuldaniðurfellingu hjá fólki, að einhverju leyti hið minnsta.

Evran slæm hugmynd

Egill spurði Stiglitz hvort rétt væri að hann héldi mikið upp á íslensku krónuna. Stiglitz svaraði því til að lítil efnahagskerfi væru betur í stakk búin til að aðlagast breyttum aðstæðum en þau stóru. Hann benti á að gífulegur straumur ferðamanna til landsins í sumar væru beinlínis krónunni að þakka.

Í þessu sambandi tók hann fram að evran myndi engan veginn henta hér á landi, einmitt vegna smæðar efnahagskerfisins. Íslendingar mættu ekki við því að vera með gjaldmiðil sem þeir hafa svo litla stjórn á. Það hafi einmitt verið ástæðan fyrir því að Svíar höfnuðu evrunni á sínum tíma. Þeirra eigin gjaldmiðill veitir meiri stöðugleika.

Lærðum ekkert af sögunni

Ljóst er að hagfræðingar hafa um allan heim mistúlkað þá þróun sem hefur átt sér stað í efnahagslífinu á heimsvísu. Stiglitz segir það í raun ótrúlegt að menn hafi ekkert lært af sögunni, því allt frá upphafi kapítalismans hafa komið fram bólur sem síðan springa með látum. Þetta telur hann aldrei koma til með að breytast. Munurinn nú er hins vegar sá að við höfum þekkingu til að gera vandann enn stærri en áður, með alvarlegri afleiðingum.

Hann segir marga hagfræðinga hafa trúað á einfaldaða mynd markaðssamfélagsins sem sé alls ekki raunhæf.

Egill spurði Stiglitz að lokum hvort hann gæti hugsað sér að starfa hér á landi sem ráðgjafi íslenskra stjórnvalda í efnahagsmálum. Stiglitz gaf ekkert ákveðið svar en sagði mikilvægt að allir hjálpuðust að og hann léti sitt ekki eftir liggja.

Stiglitz fundar með íslenskum ráðamönnum á meðan hann dvelur hér á landi. Auk þess heldur hann opinn fyrirlestur á morgun í Öskju þar sem hann ræðir Ísland og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.