Helgi var heiðursfélagi í Vantrú

Mynd: Mynd Matthías Ásgeirsson

„Ég var bara unglingur þegar ég sá hann fyrst. Þá stóð hann í Austurstræti, með skiltið sitt; Brennið þið kirkjur. Ég keypti af honum rímur og einhverja bæklinga sem hann hafði útbúið sjálfur. Seinna keypti ég af honum skýrslu geðlæknis um hann sjálfan og fleira. Þannig hófust mín kynni af honum,“ segir Reynir Harðarson, sálfræðingur og einn af stofnendum Siðmenntar.

Í helgarblaði DV er fjallað um Helga Hóseasson og merkilegan feril hans. Helgi lést um síðustu helgi, 89 ára að aldri.

Segja má að Helgi hafi með óbeinum hætti komið að nafngift Siðmenntar, sem áður hét Félag siðrænna húmanista á Íslandi. „Ég var að skoða blaðaúrklippur og fleira sem Helgi hafði látið mig hafa. Þar sá ég að hann hafði skrifað að hinir og þessir aðhylltust „siðmennt“. Ég hafði ekki séð þetta í þessu samhengi og fannst það bráðsnjallt hjá honum. Úr varð að félagið tók nafnið Siðmennt,“ segir Reynir en Helgi mætti um nokkurt skeið á samkomur félagsins.

Reynir segir að Helgi hafi verið fyrsti yfirlýsti trúleysinginn sem hann hafi komist í tæri við. Hann hafi óneitanlega verið sérstakur maður. „En þegar ég fór að kynna mér fyrir hvað hann stóð og fyrir hvað hann barðist, þá var það allt saman afar skynsamlegt fannst mér,“ segir Reynir, sem er einnig meðlimur í félaginu Vantrú. „Hann var einnig heiðursfélagi Vantrúar og mætti til dæmis við setningu Alþingis við Austurvöll með vantrúarhópnum, haustið 2004,“ en þá bauð félagið nærstöddum upp á íslenskt skyr.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.