Íslandi bjargað: Miklir möguleikar fyrir Ísland

„Ég sé stóra möguleika fyrir Ísland í framtíðinni. Hlutirnir eru erfiðir núna, en vonandi finnum við fljótlega góða lausn á málunum,“ segir Jón S. Von Tetzchner, forstjóri og annar tveggja stofnenda norska hugbúnaðarfyrirtækisins Opera Software.

Í DV í dag er leitað til fjórtán sérfræðinga um hvernig best sé að standa að endurreisn Íslands. Þeirra á meðal er Tetzchner sem segir mikla möguleika vera fyrir Ísland.

Hann sér þessa kosti helsta í stöðunni:

„Staðsetning Íslands er athyglisverð. Það hefði á margan hátt verið náttúrulegt að setja upp mjög stóran flugvöll á Íslandi. Ég flýg sjálfur oft til Bandaríkjanna og þarf þá oft að fljúga fyrst suður og seinna yfir Noreg og Ísland á leiðinni til bandaríkjanna. Þetta eyðir miklum tíma og er ekki gott fyrir náttúruna.

Náttúra Íslands er auðvitað einnig okkar styrkur. Við höfum fallega og hreina náttúru.

Við höfum einnig mikið af hreinni orku, hreinu vatni og hreinu lofti. Hér liggja stórir möguleikar. Það sama gildir fiskinn og aðra íslenska matvöru, sem er gæðavara.

Hugvit höfum við líka mikið af. Íslendingar eru vel menntaðir og þrjóskir. Það er mikilvægt að nýta hugorkuna. Það þýðir líka að það er mikilvægt að ekki að reyna að stjórna öllu að ofan. Það verður að nýta orku og hugvit allra landsmanna.

Eins og ég hef sagt áður, finnst mér erfitt að koma með ráð að utan. Lausnin liggur í hugviti, menningu og þrjósku allra landsmanna.“

Þriggja blaðsíðna úttekt á hugmyndum sérfræðinga, um hvernig bjarga á Íslandi, í DV í dag.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.