Hjólandi menntamálaráðherra með Ipod

Mynd: DV/Sigtryggur Ari Jóhannsson

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra er þekkt fyrir að nýta sér umhverfisvænar samgöngur. Í sumarblíðunni eftir ríkisstjórnarfund í ráðherrabústaðnum í gær steig hún því upp á reiðhjól og hvarf á braut með Ipod í eyrunum. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra fór einnig á reiðhjóli í hádegishlé eftir fundahöld við Tjarnargötuna. Aðrir ráðherrar héldu fast í ráðherrabílana þrátt fyrir íslenskt sumarveður.

Ríkisstjórnin mætti til fundar í ráðherrabústaðnum í gærmorgun. Fjölmiðlar vissu í fyrstu ekki hvert efni fundarins en síðar kom í ljós að þarna undirbjuggu ráðherrarnir sig fyrir fund með aðilum vinnumarkaðarins sem hófst klukkan eitt í gær. Þar var fjallað um stöðugleikasáttmálann og væntanlegar niðurskurðaraðgerðir til að ná níður halla ríkissjóðs.

Ríkisstjórnin þarf að minnka halla ríkissjóðs um 20 til 25 milljarða króna á þessu ári. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði eftir fundinn að hún byggist ekki við niðurstöðu fyrr en síðar í vikunni en skattahækkanir eru taldar ein veigamesta leiðin.

Frekari fundir verða haldnir eftir helgina en hlé á fundahöldum er í dag.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.