Ekki nóg að Valtýr lýsi sig vanhæfan

Mynd: Mynd DV

„Ég vona að stjórnmálamenn taki mark á þessu. Okkur skortir peninga auk þess sem ríkissaksóknari hefur ekki verið settur af.“ Þetta sagði Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara í Kastljósi í kvöld. Eins og komið hefur fram hótar Eva Joly að hætta ráðgjafastörfum sínum verði þessar tvær kröfur ekki uppfylltar.

Valtýr er vanhæfur

Eva sagði að Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari sé vanæfur vegna tengsla sinna við Exista og Kaupþing. Sonur Valtýs, Sigurður Valtýsson er forstjóri Exista, sem var stór hluthafi í Kaupþingi, og segir Eva að það sé ljóst að hann sé vanhæfur. Eins og dv.is greindi frá í kvöld hefur Valtýr lýst sig vanhæfan í málefnum sem tengjast embætti sérstaks saksóknara. Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra hefur brugðist við því með því að skipa Björn Bergsson hæstaréttarlögmann ríkissaksóknara í málum sem varða bankahrunið. Eva segir hinsvegar að það sé ekki nóg. Valtýr verði að víkja. „Þetta er alvarlegt mál og almenningur ætti að krefjast þessa. Til að stjórna þessari viðtæktu rannsókn þurfa Íslendingar reyndan saksóknara sem er ekki vanhæfur,“sagði Eva.

Ekki talað við ríkisstjórnina

Aðspurð hvort hún hafi fengið viðbrögð við þessari beiðni sagði Eva að hún hafi ekki talað við ríkisstjórnina vegna málsins. Hún leggur þó áherslu á að þetta sé mál sem þurfi að leysa á pólitískum vettvangi.

Of mikið á of fáum herðum

Eva gerði einnig athugasemd við uppbyggingu embættisins. Ekki nægi að hafa einn sérstakan saksóknara þar sem um þrjá stóra banka séu að ræða. „Einn maður getur ekki stýrt þessu öllu. Við þurfum að minnsta kosti þrjá. Þessir saksóknarar ættu að vera ábyrgir fyrir sínum eigin rannsóknum og ættu ekki að heyra undir embætti sérstaks saksóknara,“ sagði Eva. Hún lagði þó áherslu á að starfsmenn sérstaks saksóknara væru góðir en þeir væru of fáir.

Vantar endurskoðendur og lögmenn

„Það eru bara fimm lögmenn en við þurfum að minnsta kosti tíu. Það þarf líka endurskoðendur og það má ekki láta þetta á herðar of fárra manna,“ sagði Eva og biðlar hún til stjórnvalda um að skoða málið og skilja að við óbreytt ástand verði okkur ekki ágengt í rannsókninni á bankahruninu. „Það verður hægt að elta sum málin en ekki öll. Það er mikilvægast að við beinum spjótum okkar að mikilvægustu málunum. Fólk verður að vita að við getum ekki elst við alla sem högnuðust lítið. Það er fyrir öllu að einblína á stóru málin. Með þeim hætti geta Íslendingar náð sættum innbyrðis.“

Góður möguleiki á árangri

Eva segist hafa fulla trú á því að hægt sé að finna peninga sem stungið var undan. „Það er erfitt og tímafrekt. Ef embætti sérstakst saksóknara verður ekki víkkað út er ólíklegt að árangur náist, þrátt fyrir hæfni þeirra sem vinna við embættið. Það er ekki þeirra sök.“

Bað um þrjár milljónir, fékk eina

Eva segir að þegar hún var ráðin í starf ráðgjafa hafi hún beðið um þrjár milljónir evra. Þriðjungur þeirrar upphæðar hafi hinsvar litið dagsins ljós. Hún sagði mikilvægt að borga rannsakendum góð laun því samkeppni ríki á þessu sviði. „Þessi rannsókn mun á endanum ekki kosta neitt. Því það sem við endurheimtum er miklu meira en kostnaðurinn við rannsóknina,“ sagði hún.

Ólafur reynslulítill en duglegur

Í viðtalinu var Eva einnig spurð út í hæfni Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara. Eva sagði að hann hefði ekki mikla reynslu en væri duglegur, góður og heiðvirður maður. „Við verðum að gefa honum tækifæri. Það er mikilvægt að hafa fært fólk við hliðina að honum.“

Þá var hún spurð út í rannsóknina sjálfa en sagðist ekkert geta tjáð sig um hana.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.