Kerfisbundnar nauðganir á börnum

Mynd: Mynd: AFP

Nauðgunarmálum þar sem ungur stúlkur, allt niður í sjö ára gamlar, eiga í hlut hefur fjölgað umtalsvert í Afganistan. Lífsskilyrði kvenna eru litlu skárri nú, eftir innrás Bandaríkjanna, en þau voru undir harðlínustjórn Talibana. Þetta fullyrða Sameinuðu þjóðirnar og mannréttindasamtök.

Aðstæður í hinu stríðshrjáða landi Afganistan fara versnandi segja Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) í árlegri skýrslu sinni þrátt fyrir tilraunir Bandaríkjamanna til betrumbóta. Það var árið 2001 sem herinn réðist inn í Afganistan til höfuðs Talibönum.

Stjórnvöld í Afganistan eru harðlega gagnrýnd fyrir getuleysi til að tryggja öryggi og réttindi kvenna þrátt fyrir stjórnarskrárbundin lög um slíkt.

Ofbeldið sem konur í Afganistan þurfa að búa við eru sagðar meðal annars nauðganir, heiðursmorð, þvinguð og fyrirfram ákveðin hjónabönd, kynferðisleg misnotkun og þrælkun að því er segir í skýrslu SÞ.

Wazhma Frogh, framkvæmdastýra mannréttindasamtakanna Global Rights Afghanistan, segir að aukning á kerfisbundnum nauðgunum í landinu sé ógnvænleg. „Sérstaklega nauðgunum á börnum 9, 8, 7 ára og jafnvel yngri,“ segir Frogh.

Ungar stúlkur sem giftar eru gegn vilja sínum, oft á tíðum barnungar, þurfa að sæta ofbeldi frá eiginmönnum sínum að sögn Suraya Pakzad stofnanda samtakanna Voice of Women, eða Raddir kvenna. Hún sjálf var gefin manni þegar hún var fjórtán ára og á sex börn. Hún segir að stúlkur allt niður í tíu ára gamlar þurfi að sæta margvíslegu ofbeldi frá eiginmönnum sínum sem oft á tíðum séu allt að 40 árum eldri en þær.

Ekkjur eru sagðar neðst í samfélagsstiga Afganistan. Án eiginmannsins þurfa þær að betla fyrir mat ofan í börnin sín.

CNN fréttastofan greinir frá þessu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.