Netníðingar leggja börn í einelti

Fjölmörg íslensk börn hafa verið og eru beitt grófu andlegu ofbeldi í gegnum vefsíðuna ringulreid.org. Vefsíðan var sett upp stuttu eftir að lögreglan lokaði annarri íslenskri barnaklámssíðu sem bar nafnið handahof.org. Þeirri vefsíðu var lokað í kjölfar umfjöllunnar DV um hana og ábendingar til blaðsins um hver stæði á bakvið síðuna. Lögreglan gekk í málið í kjölfarið og vefsíðunni var lokað.

Vefsíðan virkar þannig að hver sem er getur, í skjóli nafnleyndar, sett inn ljósmyndir og texta. Út frá þessum færslum verða til spjallþræðir með ákveðnum umræðuefnum þannig má til dæmis finna spjallþræði sem fjalla um berar ungar stúlkur. Þá keppast netníðingarnir við að birta allar upplýsingar sem hægt er að komast í um viðkomandi stúlkur og þær beinlínis lagðar í einelti með ógeðfelldum ummælum um til dæmis útlit þeirra.

Lögreglan hefur að undanförnu rannsakað síðuna með hjálp Interpol og er sú rannsókn enn í gangi.

„Ég er ung stelpa sem var sett inn á þessa síðu og það rústaði öllu í mínu lífi,“ segir ung stúlka sem ekki vildi koma fram undir nafni af ótta við hefndaraðgerðir níðinganna.

„Ég er undir lögaldri en birtar voru myndir af mér á vefsíðunni sem hafa aldrei verið birtar á netinu áður. Ég var búin að kæra dreifinguna á þessum myndum en málið er að það er ekki hægt að stoppa þetta,“ segir stúlkan sem veit um fleiri sem hafa lent í níðingunum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.