Brugðist skjótt við barnaklámi

Stjórnendur vefsíðunnar Ringulreið hafa birt tilkynningu á forsíðu vefsins þar sem fréttaflutningi DV af því sem þar tíðkast er svarað. DV hefur meðal annars greint frá því að notendur síðunnar hvöttu á dögunum til tölvupóstárása á Dorrit Moussaieff forsetafrú.

Í DV í dag er umfjöllun um síðuna á nýjan leik þar sem greint er frá því að hún sé iðulega notuð til að níðast á ungu fólki. Rætt er við unga stúlku sem segir níðingana hafa eyðilagt líf sitt. Notendur síðunnar gera sér að leik að birta nektarmyndir af ungum stúlkum, og þá hefur barnaklám þrifist á síðunni.

Eitthvað virðist barnaklámstimpillinn fara fyrir brjóstið á stjórnendum Ringulreiðar sem segja í tilkynningu sinni að barnaklám sé almennt bannað á vefsíðunni. Skýrar reglur séu um það.

„Ákveðnir einstaklingar hafa sent inn barnaklám á vefinn en stjórnendur hafa brugðist skjótt við með því að eyða myndunum og banna þá einstaklingar frá vefnum,“ segir í tilkynningu stjórnenda.

Þess ber að geta að lögreglan hefur að undanförnu rannsakað síðuna með hjálp Interpol og er sú rannsókn enn í gangi.

Sjá einnig

Netníðingar leggja börn í einelti

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.