Þorsteinn Kragh dæmdur fyrir stórfelld brot

Þorsteinn Kragh var dæmdur 9 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir aðild sína að stærsta fíkniefnasmygli Íslandssögunnar. Þá var hinn hollenski Jacob van Hinte dæmdur í sjö og hálfs árs fangelsi fyrir smyglið.

Þorsteinn var handtekinn í byrjun júlí á síðasta ári eftir að lögreglan fann 190 kíló af hassi, eitt og hálft kíló af maríjúana og eitt kíló af kókaíni í húsbíl Jacobs Van Hinte, Hollendings á sjötugsaldri. Við yfirheyrslur yfir Van Hinte nefndi hann nafn Þorsteins og leitaði lögreglan hann uppi vegna þess.

„Ég neita alfarið sök og er saklaus,“ sagði Þorsteinn við blaðamann DV þegar málið var þingsett í endaðan janúar.

Hann var ekki viðstaddur dómsuppkvaðningu í dag.

Brotin stórfelld og þeir áttu sér engar málsbætur

Þorsteinn neitaði sök frá upphafi málsins. Fram kemur í dómnum að framburður hans hefði breyst eftir því hvernig rannsókninni vatt fram. Hann hafi fyrst neitað að þekkja Hinte og að hann hefði hitt hann sumarið 2007. Sá framburður breyttist síðan.

Þá segir að þeir hafi framið brot sín í sameiningu og sé það virt til refsihækkunar. Segir að brot bæði Jacobs og Þorsteins séu stórfelld og þeir sagðir ekki eiga sér neinar málsbætur. Magn þeirra fíkniefna sem þeir hafi ætlað að flytja inn í landið hafi verið slíkt.

Öll fíkniefnin verða gerð upptæk og sömuleiðis húsbíllinn sem notaður var við smyglið.

Jacob og Þorsteinn þurfa þá að greiða óskipt 1.430.239 krónur í sakarkostnað.

Þorsteinn þarf að greiða verjanda sínum, Helga Jóhannessyni, 2.4 milljónir króna í málsvarnarlaun, og Jacob van Hinte þarf að greiða verjanda sínum Páli Arnóri Pálssyni sömu upphæð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.