Saga Akraness: 75 milljónir en engu skilað

Gunnlaugur Haraldsson rithöfundur hefur fengið tæpar sjötíu og fimm milljónir króna í laun frá Akraneskaupstað fyrir að rita sögu bæjarins. Launin hefur hann fengið síðustu tólf ár en á tímabilinu hefur hann ekki skilað inn handriti að verkinu.

Bæjarstjórn hefur þrívegis framlengt samninga við höfundinn á þessum tólf árum. Bæjarstjórn samþykkti á síðasta fundi sínum að halda áfram að greiða honum laun í þeirri von að rithöfundurinn ljúki verkinu. Fram á næsta vor fær hann rúmar fjórar milljónir í laun og á Gunnlaugur að skila handriti fyrir sumarið um sögu bæjarins frá landnámi til 19. aldar. Takist það fær hann síðan tveggja milljóna króna lokagreiðslu frá bænum.

Rosalegur peningur

Karen Jónsdóttir, bæjarfulltrúi Frjálslyndra og óháðra á Akranesi, var eini bæjarfulltrúinn sem samþykkti ekki að halda áfram launagreiðslum til höfundarins. Hún telur það bruðl að halda greiðslum áfram. „Þetta er búið að vera í gangi í 12 ár og það finnst mér ansi langur tími. Hann hefur hins vegar ekki skilað af sér því sem honum bar. Auðvitað hefur höfundurinn fært fram sín rök en ég er búin að missa alla trú á hans skýringum. Bókin er orðin ansi dýr og ég vil hætta að borga höfundi laun. Að halda áfram finnst mér bara bruðl en auðvitað er það óskandi að þetta væri klárað. Ég efast um að þetta verði einhvern tímann tilbúið til prentunar og því get ég ekki samþykkt að setja meiri peninga í þetta. Mér finnst nóg komið,“ segir Karen.

Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri Akraness, er sammála því að verkið hafi tekið alltof langan tíma og að það sé óheyrilega kostnaðarsamt. Hann bendir á að verkið sé arfur fyrri bæjarstjórna og vonast til að því ljúki í vor. „Þetta er búið að taka æði langan tíma og það er búið að fara rosalegur peningur í þetta. Þegar ég tók við verkinu þá var það svo langt komið að við vorum næstum komin yfir ána. Þá hélt ég að þetta væri bara að detta inn. Nú eru þetta orðin tólf ár og engin bók komin. Höfundurinn er afar nákvæmur og gerir miklar kröfur til sjálfs síns. Það virðist vera sem hann hafi átt í erfiðleikum með að setja lokapunktinn á verkið. En það er að koma núna,“ segir Gísli.

Góð samviska

Gunnlaugur fullyrðir að ritin verði tilbúin til prentunar næsta sumar og að um fjögur vegleg bindi sé að ræða. Hann telur verkið hafa verið of óskýrt í upphafi. „Það er eðlilegt að menn séu orðnir svolítið óþolinmóðir. Þetta er hins vegar talsvert mikið ritverk og sjálfur hefði ég viljað fá meiri tíma. Á þessum langa tíma hefur verkið breyst á leiðinni og tekin hafa verið hlé sem hafa tekið verkið úr sambandi. Að mínu mati er tíminn sem hefur farið í þetta eðlilegur og launin tel ég eðlileg. Bindin eru þúsund síður og verða tilbúin næsta sumar,“ segir Gunnlaugur.

„Það var ókostur hversu óskýrt var byrjað á verkinu. Ég geri þetta eins vel og ég get. Það er síðan annarra að dæma um gæði verksins en ég er afskaplega sáttur að hafa fengið tækifærið. Mér er vel kunnugt um gagnrýnina en þeir sem tala hæst hafa aldrei komið nálægt ritstörfum. Ég leiði gagnrýnina alveg hjá mér og hún snertir mig ekki.“

Stíf pressa

„Ég hef alveg þokkalega samvisku út af mínum störfum. Auðvitað finnst mér leitt að þetta hafi ekki gengið hraðar hjá mér. Verkið hefur vaxið nokkuð í höndum mér og mikill tími hefur farið í frumkönnun. Ég lýk þessu í júní eða júlí,“ bætir Gunnlaugur við.

Gísli segir kostnaðinn við verkið ekkert leyndarmál og ítrekar að hann hafi pressað stíft á verklok frá höfundi. Hefði hann vitað endakostnaðinn segist hann aldrei hafa samþykkt að ráðist yrði í verkið. „Kostnaðurinn er fjárans nógur en það sem ég hef séð af bókinni er geysilega falleg vinna. Hefði ég vitað þennan endakostnað þá hefði ég aldrei lagt til að farið væri í verkið. Verkið er arfur fyrri bæjarstjórna og við erum núna að reyna að klára þetta,“ segir Gísli.

„Mér þykir þetta svo dýrt að tungan á mér er bólgin. Ég fékk þær skýringar frá höfundi að heimildir frá fyrri tímum hafi einfaldlega verið rangar. Ég get ekki annað en tekið skýringarnar trúanlegar. Við ákváðum að greiða honum áfram í þeirri von að þetta sé lokahnykkurinn. Ég er viss um að við fáum bókina núna.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.