Bjarni Ben í braski: Veðsetti bréfin í Vafningi (Myndir)

Bjarni Benediktsson veðsetti hlutabréf í eignarhaldsfélaginu Vafningi í febrúar í fyrra. Sama dag og veðsetningarumboðin eru dagsett keypti félagið lúxusturn í Makaó af Sjóvá. Líklega voru kaupin fjármögnuð með lánveitingu frá Sjóvá. Þrátt fyrir þetta neitar Bjarni því að hann hafi vitað að Vafningur væri að fjárfesta í Makaó en hann var á þessum tíma stjórnarformaður BNT sem átti hlutabréf í Vafningi í gegnum annað félag. Bjarni ræðir um aðkomu sína að Vafningi í helgarblaði DV.

Aðspurður af hverju hann hafi fengið umboð frá félögunum þremur sem voru í eigu fjölskyldu hans - BNT, Hrómundi og Hafsilfri - til að veðsetja hlutabréfin í Vafningi sama dag og félagið keypti turninn í Makaó segir Bjarni: „Nei, ég vissi ekkert af því á hvaða tímapunkti þessar eignir fluttust inn í Vafning,“ segir Bjarni sem samkvæmt þessu vissi ekki að á sama tíma og hann fékk umboðið var félag, sem var að hluta til í eigu ættingja hans sem og félags sem hann var stjórnarformaður og hluthafi í, að festa kaup á fasteignaverkefni í Makaó fyrir rúma fimm milljarða króna. Daginn áður en Vafningurinn keypti fasteignaverkefnið í Makaó seldi Milestone eignarhaldsfélaginu Mætti 12,1 prósents hluta í Vafningi fyrir rúmar 60 þúsund krónur og var Bjarni einn af þeim sem gat skrifað undir samninginn fyrir hönd Máttar.

„Þeir [Benedikt og Einar, innsk. blaðamanns] voru ekki staddir á landinu og báðu mig um það fyrir sína hönd að skrifa undir ákveðinn veðsamning þar sem þeir voru að veðsetja hlutabréfin sín í félaginu... Þetta var veðsamningur sem gerður var við bankann vegna lána sem bankinn hafði veitt félaginu,“ segir Bjarni en BNT, Hrómundur og Hafsilfur voru í eigu föður Bjarna, Benedikts Sveinssonar, og föðurbróður hans, Einars. „Þegar eigendur þessara hlutabréfa í Vafningi óska eftir því við mig að ég sjái um að veðsetja hlutabréf þeirra í félaginu fyrir þeirra hönd þá geri ég ekkert annað en það og tek engar aðrar ákvarðanir um neitt annað... Þeir gátu ekki farið í bankann þennan dag til að veðsetja bréfin sín í Vafningi. Það var bara verið að ganga frá endurfjármögnun lána í bankanum og það þurfti bara að gerast þennan dag... Ég myndi líka vilja fullyrða við þig að eigendur Hafsilfurs [Benedikt faðir Bjarna, innsk. blaðamanns] - ég skal ekki segja með hann Einar því ég hef ekki rætt þetta við hann - hafa aldrei tekið ákvörðun um að kaupa eða veðsetja nokkuð varðandi eignir í Makaó. Þú verður að ræða þetta mál við stjórnarmennina í Vafningi. Ég hef aldrei setið þar í stjórn og ekki komið nálægt málinu,“ segir Bjarni sem bætir því við aðspurður að hann ætli ekki að tjá sig um það fyrir hverju hlutabréfin í Vafningi hafi verið veðsett. „Ég ætla bara ekkert að tjá mig um það.“

Hugsanlegt er hins vegar að þetta hafi verið gert sem veð á móti tæplega 5 milljarða króna láni frá Glitni inn í eignarhaldsfélagið Svartháf, sem var í eigu föður Karls og Steingríms Wernerssona, sem síðan var endurlánað strax aftur til Vafnings á fyrstu mánuðum 2008. Eini tilgangur Svartháfs var að vera leppur fyrir frekari lánveitingar frá Glitni til þeirra Wernerssona. Vafningur fékk enn fremur 10 milljarða króna víkjandi lán frá Sjóvá síðar í febrúar. Ljóst er að kaup Vafnings á lúxusturninum voru fjármögnuð með einhverju af þessum lánveitingum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.