Matur gegn krabbameini

Mynd: Mynd Rakel Ósk Sigurðardóttir

„Hjá þeim þjóðum þar sem þegnar hreyfa sig meira, borða meira af ávöxtum og grænmeti en minna af kjöti og mjólkurvörum er tíðni krabbameina mun lægri,“ segir Oddur Benediktsson vísindamaður en Oddur kynnti sér áhrif mataræðis á krabbamein þegar hann greindist með blöðruhálskrabba árið 2005.

„Ég var allt of feitur, ég er bara 170 cm á hæð en var kominn yfir 90 kíló og drakk of mikla mjólk og borðaði of mikið af ís. Krabbinn var orðinn það dreifður að ég þurfti á hormónameðferð að halda. Ég svaraði meðferðinni vel en í mínu tilviki er þetta ólæknandi en ég er við góða heilsu í dag,“ segir Oddur og bætir við að breytta mataræðið hafi skipt sköpum fyrir líðan hans en hann hefur ekki bragðað mjólkurvörur og lítið kjöt í fjögur ár og er tíu kílóum léttari fyrir vikið.

Þegar Oddur greindist stofnaði hann, ásamt öðrum karlmönnum, krabbameinsfélagið Framför en félagið átti frumkvæði að útgáfu bókarinnar Bragð í baráttunni - matur sem vinnur gegn krabbameini eftir Kanadamennina R. Béliveau og D. Gingras sem JPV útgáfan gaf nýlega út en þar er að finna fjölda uppskrifta að aðgengilegum, gómsætum og umfram allt hollum réttum. „Þetta svið hefur verið mikið rannsakað síðustu tíu árin og sú fæða sem hefur hemjandi áhrif á tilurð og vöxt krabbameina er ýmis jurtafæða, spergilkál, soja, hvítlaukur, engifer, söl, dökkt súkkulaði, glas af rauðvíni, bláber og fleira. Þegar krabbamein breiðist út skjóta krabbameinshlunkarnir nýjum æðum í æðakerfið til að fá hraðar næringu en þessi efni hamla þessari nýæðamyndun,“ segir Oddur sem segir fæðuna einnig fyrirbyggja krabbamein og marga aðra þráláta sjúkdóma.

Oddur segir að blöðruhálskrabbamein hafi lengi verið ákveðið feimnismál á meðal karlmanna en sem betur fer sé umræðan að opnast mikið. „Hér áður fyrr áttu menn helst að láta sig hverfa ef þeir greindust með blöðruhálskrabbamein en umræðan er nú komin upp á yfirborðið sem er mjög mikilvægt. Tölur um blöðruhálskrabbamein eru sláandi og það greinast fleiri karlmenn á hverju ári með þetta krabbamein en konur með brjóstakrabbamein,“ segir Oddur en um 200 karlmenn greinast með blöðruhálskrabbamein á ári hverju. „Hæsta tíðnin er hér í Norður-Evrópu og þótt meðalaldur manna sé 72 ár greinast ungir karlmenn í vaxandi mæli en þá er sjúkdómurinn oft illviðráðanlegur.“

Hægt er að lesa meira um krabbameinsfélagið Framför og bókina Bragð í baráttunni á slóðinni www.framfor.is.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.