Kompás fór með skúbb í Kastljósið

Mynd: Gunnar Gunnarsson

Í Kastljósinu í kvöld var viðtal við Kristinn Hrafnsson þar sem hann sagði frá háum fjárveitingum sem breskur kaupsýslumaður fékk frá Kaupþingi rétt fyrir bankahrun. Kristinn vann við gerð þáttanna Kompás sem teknir voru af dagskrá Stöðvar 2 í síðustu viku og öllum starfsmönnum þáttarins sagt upp.

Í Kastljósinu sagði Kristinn frá athafnamanninum Robert Tchenguiz sem fékk um 280 milljarða króna lánaðar frá Kaupþingi frá september 2007 til 3. októbers 2008, nokkrum dögum fyrir gjaldþrot bankans. Kompás ætlaði að segja frá málinu í þætti sem hefði átt að vera á dagskrá í gær en komst aldrei í loftið þar sem þátturinn var tekinn af dagskrá Stöðvar 2.

Kristinn og félagar hans í Kompás voru búnir að fullvinna þáttinn samkvæmt heimildum dv.is og ræddi Kristinn ítarlega um málið við Helga Seljan í Kastljósi kvöldsins.

Samkvæmt heimildum Kompás voru peningarnir sem Tchenguiz fékk frá Kaupþingi fluttir í skattaskjól á bresku Jómfrúareyjunum samkvæmt heimildum Kompáss. Tchenguiz hefur fengist við fjárfestingar, kráarrekstur og fasteignaumsýslu í Bretlandi en á því tímabili sem hann fékk lánveitingar frá Kaupþingi vissu stjórnendur bankans að fyrirtæki hans stæðu mjög illa.

Rannsókn Kompás leiddi í ljós að lánin voru mun fleiri og margfalt hærri en áður hefur komið fram. Siðustu lánveitinguna upp á tíu milljarða króna fékk Tchenguiz föstudaginn 3. október á síðasta ári. Fjórum dögum seinna fór bankinn í þrot og ríkið tók yfir.

Samkvæmt rannsókn Kompás þverbrýtur þessi lánastarfsemi reglur bankans varðandi lánaveitingar. Allir peningarnir fara í gegnum skattaskjól á bresku Jómfrúareyjunum en Ríkisskattstjóri hefur sagt að notkun á slíku skattaskjóli sé til að dylja eignarhald eða fjármuni.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.