Sýnishorn af Stefáni Karli

„Hann er eins svona eins og flest ungbörn. Sefur og drekkur, svolítið eins og róni,“ segir Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikkona um nýfæddan son sinn og Stefáns Karls Stefánssonar. „Mér finnst hann alveg eins og Stefán. Hann er eins og lítið demó af honum.“

„Hér líður öllum vel. Strákurinn fæddist heilbrigður og það er fyrir öllu. Það er voða lukka á þessu heimili,“ segir Steinunn Ólína um sitt fjórða barn og fyrsta strákinn.

Drengurinn hefur fengið nafnið Þorsteinn og er kallaður Steini Stef á heimilinu. Hann vó 14 og hálfa mörk og var 49 sentímetrar við fæðingu. Steinunn segir Þorstein líkan pabba sínum.

Steinunn Ólína og Stefán Karl Stefánsson búa í góðu yfirlæti í San Diego í Kaliforníu ásamt þremur dætrum sínum, þeim, Bríeti, Elínu og Júlíu. Yngsta dóttirin, Júlía, fæddist fyrir rúmu ári. Steinunn segir þau vera með nóg af verkefnum við höndina þar á meðal nokkur saman, en að fjölskyldan verði í fyrirrúmi. „Við ætlum að taka okkur barneignarfrí næstu vikurnar og vera með og dást að og sinna fröken Júlíu sem er ársgömul,“ segir Steinunn.

Bæði Þorsteinn og Júlía fæddust í Bandaríkjunum og eru þar af leiðandi bandarískir ríkisborgarar. Steinunn Ólína tekur þó fram að þau muni einnig fá íslenskt ríkisfang. „Við Stefán erum líka komin með græna kortið og höfum því atvinnuleyfi hér vestanhafs. Það tók þrjú ár og er búið að vera mjög kostnaðarsamt og tímafrekt,“ útskýrir Steinunn og hún er ekki á leiðinni heim.

„Ég hef ekki komið heim í tvö ár og er í raun ekki með neina heimþrá. Fjölskyldur okkar beggja eru duglegar að heimsækja okkur hingað. Það slær á mesta söknuðinn,“ segir Steinunn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.